132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:08]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja eins og aðrir á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þá skýrslu sem hann flutti okkur í morgun. Það er afskaplega mikilvægt fyrir okkur sem störfum á Alþingi að fá slíka skýrslu á hverju ári. Samskipti milli ríkja og ekki síður milli fólks og fyrirtækja frá einu ríki til annars eru alltaf að aukast. Það skiptir verulegu máli fyrir okkur sem hér búum og hefur mikil áhrif á daglegt líf okkar hvernig til tekst í erlendum samskiptum okkar.

Skýrslan er í raun eins og hún er fram sett bæði samantekt á liðnum atburðum á alþjóðavettvangi en ekki síður að mér finnst yfirferð á stefnu og afstöðu ríkisstjórnarinnar til margra þeirra álitamála sem uppi eru á þeim vettvangi.

Misskipting auðs milli þjóða heims og einnig innan einstakra ríkja hlýtur að vera áhyggjuefni allra sem skoða það málefni af einhverri alvöru. Ef ekki verður gripið til aðgerða til jöfnunar eða a.m.k. aðgerða sem gera hinum fátækari kleift að vinna sig út úr núverandi stöðu, mun hættan á ágreiningi og átökum milli ríkja og einnig milli hópa innan sama ríkis einnig aukast. Við höfum séð á uppþotunum í Frakklandi undanfarnar vikur hvernig gremja með kjör og vonleysi um framtíð getur brotist út í fjöldamótmælum og oft tilgangslitlu ofbeldi ef ekki er hugað nægjanlega vel að þessum þáttum.

Máltækið um að betra sé að byrgja brunninn áður en barnið dettur ofan í hann á vel við í þessu efni og Sameinuðu þjóðunum tekst ekki nægjanlega vel og fljótt að byrgja þann brunn sem við blasir. Tækifæri til að gera eitthvað áþreifanlegt á 60 ára afmæli Sameinuðu þjóðanna gekk mönnum úr greipum að mínu viti.

Frú forseti. Ég verð að taka undir vonbrigði utanríkisráðherra sem fram koma í skýrslunni með niðurstöður síðasta leiðtogafundar Sameinuðu þjóðanna þar sem ekki tókst að þoka baráttunni við fátækt í heiminum áfram í samræmi við væntingar sem til fundarins höfðu verið gerðar, en í skýrslu sinni sagði hæstv. utanríkisráðherra að þótt vel hafi miðað í sumum efnum hefðu niðurstöður leiðtogafundarins valdið vonbrigðum og ljóst væri að mörgum aðkallandi verkefnum væri ólokið.

Mér sýndist reyndar á upptalningu hæstv. ráðherra á því hvað vel hefði tekist til og einnig hinu hvar ekki hefði tekist að ná ásættanlegri niðurstöðu þá væri í raun af litlu að gorta á jákvæðu hliðinni en fjölmörg atriði tínd til til vitnis um hvar ekki hefði náðst ásættanlegur árangur.

Hæstv. utanríkisráðherra fer mörgum orðum um hversu dapurlegt það væri að ekki hefði tekist að ganga frá því hvernig nýtt mannréttindaráð kæmi í stað mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna en sú nefnd er að mestu óstarfhæf í dag. Ég get tekið undir þá skoðun sem fram kemur í skýrslunni að miklu skipti að til sé öflugt mannréttindaráð sem fylgist með mannréttindum og gagnrýni einarðlega ríkisstjórnir sem ekki virða þau.

En ekki fer þó hjá því að hugurinn reiki aðeins aftur til síðustu fjárlagagerðar á Íslandi þar sem við í stjórnarandstöðunni glímdum við stjórnvöld hér á landi vegna meðferðar þeirra á Mannréttindaskrifstofu Íslands. Ég held að færi betur á því að hæstv. ráðherrar praktíseruðu það heima fyrir sem þeir predika í útlöndum. Vonandi er kaflinn í ræðu hæstv. utanríkisráðherra um mannréttindi merki þess að betur verði búið að slíkum samtökum hér innan lands í framtíðinni en nú er gert. Ég er ekki með þessu að reyna að bera saman stöðu mannréttindamála á Íslandi og þar sem verst gerist í heiminum. Það sem ég er að gera með þessu er að bera saman viðbrögð ráðandi aðila við gagnrýni mannréttindasamtaka.

Frú forseti. Í skýrslunni segir, með leyfi forseta:

„Íslensk stjórnvöld styðja eindregið núverandi vinnu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna að gerð víðtæks alþjóðasamnings um ráðstafanir gegn hryðjuverkum. Ísland hefur ætíð lagt áherslu á að baráttan gegn þeim megi ekki vera á kostnað mannréttinda eða mannúðarlaga.“

Frú forseti. Ég á ekki gott með að sjá hvernig þessi texti í skýrslunni samræmist þeim stuðningi sem íslensk stjórnvöld lýstu yfir með innrás Bandaríkjanna í Írak en vonandi er þetta þó merki um að íslensk stjórnvöld hafi lært eitthvað af þeim ósköpum og að í framtíðinni munum við aldrei standa frammi fyrir eins gerræðislegri ákvörðun og þá var tekin um stuðning við stríðið.

Aðeins að kaflanum um varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna. Þegar ég las skýrsluna og fór í gengum hvernig hún er uppbyggð varð ég fyrir ansi miklum vonbrigðum með þennan litla kafla eins og hann kemur þar fyrir. En það sem ég gerði var að rýna í textann og reyna að skilja eða átta mig á hvað var í raun verið að segja í textanum.

Í fyrsta lagi er tekið fram að varnarsamstarf Íslands og Bandaríkjanna byggi á aðild ríkjanna að Atlantshafsbandalaginu og snerti viðbúnað og stöðu þess á Norður-Atlantshafi. Þetta er enginn nýr sannleikur og við vitum öll sem höfum fylgst með þessum málum að þetta er einmitt þannig.

Í öðru lagi er sagt að viðræður íslenskra og bandarískra stjórnvalda um framkvæmd varnarsamningsins hafi hafist í júlí sl. Ég verð að segja eins og er, frú forseti, að það kemur mér mjög á óvart að sjá það í skýrslu hæstv. utanríkisráðherra að viðræður íslenskra og bandarískra stjórnvalda um framkvæmd varnarsamningsins hafi hafist í júlí á þessu ári. Ég hélt satt að segja að bókunin með varnarsamningnum hefði runnið út á árinu 2001, bókunin sem gerð var árið 1996, og að menn hefðu að sjálfsögðu strax þá hafið viðræður við Bandaríkin um með hvaða hætti framkvæma ætti samninginn.

Það hefur reyndar ekki farið hjá því að ósköp lítið hefur verið um svör þegar spurt hefur verið hvernig gangi í þessum viðræðum, þreifingum, samningaviðræðum eða hvað það hefur verið kallað. Ég trúin því bara ekki að hæstv. utanríkisráðherra haldi að hægt sé að segja okkur það hér á Alþingi að viðræður um framkvæmd varnarsamningsins hafi hafist fyrir fjórum mánuðum síðan.

Í skýrslunni segir að eins og fram hafi komið hafi þær gengið seinlega, þessar viðræður við Bandaríkjamenn. Þær hafa gengið seinlega. Maður hefur sjaldan lesið fullyrðingu um eitthvað sem gengur jafnafskaplega illa og viðræður okkar við Bandaríkjamenn og það kemur fram í skýrslu hæstv. ráðherra þegar hann leggur þetta fram á Alþingi að þessar viðræður gangi seinlega.

Í þriðja lagi kemur fram að íslensk stjórnvöld eru reiðubúin til að greiða verulegan hluta þess kostnaðar sem hlýst af rekstri og viðhaldi Keflavíkurflugvallar enda hafi borgaraleg flugumferð um völlinn aukist mikið. Þetta er atriði sem margoft hefur komið fram í umræðum hér á þingi og í viðræðum við Bandaríkjamenn og er í sjálfu sér engin ný tíðindi í þessa skýrslu. Vilja stjórnvalda til að kanna möguleika á samstarfi á sviði þyrlubjörgunar, sem minnst er á í skýrslunni, ber að fagna og vonandi tekst að ná þessu inn í þeim viðræðum sem í gangi eru, þ.e. þegar þær kannski halda áfram eða fara í gang aftur.

Í fimmta lagi er sagt að bæði það að reka flugvöllinn og eins að taka þátt í rekstri á þyrlum mundi hafa aukin útgjöld í för með sér og sýni því eindreginn vilja af hálfu okkar til að finna framtíðarlausn á því hvernig varnarsamningurinn er framkvæmdur.

Hvað vantar þá í raun? Ef viljinn er svona mikill hjá okkur, getum við þá dregið þá gagnályktun að það sé enginn vilji hjá Bandaríkjamönnum og það sé sú staða sem við horfum framan í í dag?

Kaflinn endar síðan á því að meginmarkmiðið sé að tryggja lágmarksvarnarviðbúnað, eins og það er kallað, á Íslandi sem þjóni hagsmunum beggja ríkja og sé í samræmi við ákvæði varnarsamningsins um verkaskiptingu milli aðila.

Þegar maður les í gegnum þennan kafla, eins og hann stendur þarna, miðað við hvernig gengið hefur undanfarið að ræða við Bandaríkjamenn og þá stöðu sem uppi er í þeim samningaviðræðum þá veltir maður að sjálfsögðu fyrir sér hvernig hægt sé að komast eitthvað áfram í þessu mikilvæga máli og hver sé staða okkar Íslendinga þegar við veltum fyrir okkur hvaða varnir t.d. við höfum í dag. Ef við veltum nú upp vörnum Íslands gagnvart hugsanlegu ofbeldi af hálfu erlendra ríkja þá gætum við skipt þeim vörnum í fjóra hluta.

Í fyrsta lagi er það sú vörn sem felst í viðurkenndri þátttöku í samfélagi þjóðanna, þar með talinni aðild okkar að Sameinuðu þjóðunum, samstarfi Evrópuríkja, Evrópuráðinu, ÖSE, EES og norrænu samstarfi. Þetta samstarf okkar við önnur ríki felur í sér ákveðna vörn ef til hættutíma kemur. Í öðru lagi er það aðildin að NATO eða Atlantshafsbandalaginu. Í þriðja lagi er það varnarsamningurinn við Bandaríkin og þá kannski í fjórða og síðasta lagi hvaða viðbúnað varnarliðið er með á Íslandi til að mæta þeirri vá sem uppi gæti verið.

Ég held að í sjálfu sér hafi ekki verið neinn ágreiningur um það af hálfu okkar þingmanna Samfylkingarinnar að við teljum að semja þurfi um stöðu Íslands í varnar- og öryggiskerfi Atlantshafsbandalagsins og Evrópu án þess að stefna að því að segja upp varnarsamningnum. Þegar hv. þingmenn stjórnarliðsins koma hér upp og kalla eftir afstöðu Samfylkingarinnar í þessu máli þá vil ég bara hvetja þá þingmenn sem eru læsir til að lesa þann texta sem komið hefur frá Samfylkingunni um þetta því að þar stendur alveg skýrum stöfum að Samfylkingin hefur ekki þá stefnu að segja upp varnarsamningnum við Bandaríkin. Við teljum að það þurfi að ná samningum um hvað sé ásættanlegur lágmarksvarnarviðbúnaður. En við höfum ekki í raun getað séð enn þá hvernig stjórnvöld komast að þeirri niðurstöðu sinni að sá lágmarks varnarviðbúnaður felist í þeim fjórum þotum sem hér eru.

Þingmenn Samfylkingarinnar hafa flutt á þingi mál þar sem við viljum að skipuð verði nefnd sem hefði það hlutverk að skilgreina hver staða okkar sé í hinum flókna heimi í dag, hvaða vá sé fyrir dyrum sem við sjáum og hvaða varnir við þurfum að hafa gegn þeirri vá. Vonandi verður gengið til þess verks að komast í gegnum það að skilgreina saman þessa stöðu og nauðsynleg lágmarksviðbrögð eða varnarviðbúnað sem við þurfum að hafa hér. Það hjálpar ekkert að þingmenn séu að hlaupa hér upp hver á fætur öðrum í andsvörum eins og kom hér fyrir í morgun þegar hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson kom upp og sneri út úr ræðu hv. þm. Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur. Hann leyfði sér í raun að viðhafa rangfærslur og leggja hv. þingmanninum orð í munn sem ekki höfðu heyrst í ræðu hennar. Slíkar æfingar munu ekki í þetta skipti frekar en í önnur skila nokkru í þessu máli.

Fimmtán mínútur eru ákaflega stuttur tími til þess að fjalla um jafnviðamikla skýrslu og hér er verið að fara í gegnum. Íslenska friðargæslan fær nokkuð part í skýrslunni. Það er eðlilegt miðað við aukin umsvif í friðargæslu. Ég var ánægður með að sjá að í skýrslunni kemur fram í texta að starfsmenn íslensku friðargæslunnar sé ekki hermenn og þeim ekki ætlað að fást við hernaðarleg verkefni. Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að einmitt þannig sé það og ekki bara í orði heldur líka á borði. Við eigum að leggja áherslu á þetta, þ.e. að við erum ekki með her, að íslenskir friðargæsluliðar geta aldrei verið hermenn og að þetta séu borgaralegir starfsmenn sem sinna borgaralegum verkefnum. Það er ánægjulegt að sjá að þetta er staðfest síðar með því að þegar öryggi þessara starfsmanna okkar er í hættu í norðurhluta Afganistan þá hefur verið tekin sú ákvörðun að draga þá til baka frá því svæði þannig að þeir lendi þar ekki í verulegri hættu.

Það kemur reyndar á óvart að lesa í skýrslunni að hluti af verkefnum íslensku friðargæslunnar sé að flytja vopn og hergögn á vegum Atlantshafsbandalagsins. Ég hef aldrei komið því heim og saman í mínum huga að friðargæsla og vopnaflutningar geti verið tvær hliðar á sama teningnum.