132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:27]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég legg það til að hv. þm. Jón Gunnarsson ræði þessi mál í sínum þingflokki og upplýsi bæði formann Samfylkingarinnar, hv. þm. Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, og hv. fyrrverandi formann Samfylkingarinnar, Össur Skarphéðinsson, um stefnu Samfylkingarinnar því að þegar við heyrum þau tala hér þá talar fólk út og suður.

Hann segir að við séum að fá línu frá Valhöll. Ég segi bara: Er þetta það sem Samfylkingin gerir? Sendir hún út línur um hvað fólk eigi að tala? Þannig vinnum við ekki hjá Sjálfstæðisflokknum.

Við höfum einfaldlega mjög skýra stefnu í utanríkismálum. Við viljum byggja á þeim varnarsamningi sem er. Við viljum vera áfram í NATO. En ég heyri ekki annað t.d. þegar hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir talar að þá vilji hún byggja á vörnum með Evrópu en ekki Bandaríkjamönnum eða þannig heyri ég hana tala alla vega. Vel getur verið að það fari í taugarnar á hv. þm. Jóni Gunnarssyni að vera minntur á að Samfylkingin talar út og suður í utanríkismálum.