132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:01]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég ætla ekki að bregða hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni um oflæti þegar hann benti fólki sem hér hefur tekið þátt í umræðunni á að það ætti ef til vill að kynna sér málin betur. Ég ætla ekki að bregða hv. þingmanni heldur um vanþekkingu á þeim málum sem hann talaði um. Ég var ósammála flestu sem þessi ágæti fulltrúi Sjálfstæðisflokksins setti fram í máli sínu áðan. Um eitt var ég þó honum algerlega sammála. Ég var honum algerlega sammála um að grundvöllurinn að því að jafna kjör heimsins og bæta kjör þeirra þjóða sem eiga ekki í jafngóðum efnum og við er fríverslun. Ég og reyndar jafnaðarmenn á alþjóðavísu erum þeirrar skoðunar að aukinn þróttur í fríverslun sé besta ráðið til að bæta velferðarstig í þróunarlöndunum. Þetta er eitt af því sem forustumenn t.d. breska Verkamannaflokksins, bæði Tony Blair og Gordon Brown, hafa árum saman lagt þunga áherslu á og þó sérstaklega nú hin síðari missiri. Ég er honum líka alveg sammála um þær áherslur sem hann lagði varðandi innanlandsframleiðslu, t.d. á sviði landbúnaðar, en ég tel að sú áhersla kunni að vera heldur óvinsæl innan hans ágæta flokks.

Fyrst við erum að tala um fríverslun, frú forseti, vildi ég gjarnan fá að heyra það annaðhvort frá hæstv. utanríkisráðherra eða hv. þingmanni, sem er formaður þingmannanefndar EFTA, hvað líður mikilvægum fríverslunarsamningi sem við höfum margoft rætt um á hinu háa Alþingi og tengist fríverslun við Kanada. Ég er þeirrar skoðunar að það gæti orðið eitt það farsælasta skref sem við gætum stigið í þeim efnum. Eftir því sem ég best veit hefur Evrópusambandið ekki gert slíkan fríverslunarsamning við Kanada og því tel ég að við værum þar á vissan hátt komin framar ESB ef okkur tækist að ná slíkum samningi. Á sínum tíma komu hingað kanadískir frændur okkar og óskuðu beinlínis eftir þessu. Allar götur síðan hefur verið eftir því gengið af mér og ýmsum öðrum hvað valdi því að ekki er enn búið að gera þennan samning við frændur og frænkur okkar í vestri. Ég tel að okkur beri skylda til þess, bæði frá sjónarhóli okkar eigin viðskiptahagsmuna en ekki síður í því ljósi að við eigum til mikils skyldleika við þá þjóð að rekja og okkur ber skylda til að gera allt það sem við getum til að taka þetta upp. Ég spyr: Hvað dvelur orminn langa? Hvernig stendur á því að utanríkisþjónustan er ekki búin að ganga frá þessu? Ef það er svo, eins og hér hefur stundum verið sagt, að það sé þverstæða og þvergirðingsháttur annarra frænda okkar, Norðmanna, þá langar mig til að spyrja þessa tvo hv. þingmenn sem ég nefndi í ræðu minni: Er þá ekki kominn tími til að Íslendingar ráðist í gerð eigin tvíhliða fríverslunarsamnings við Kanada?

Utanríkisstefna ríkis eins og Íslands hefur tvíþættan tilgang: Í fyrsta lagi að leggja breiðan ramma að samskiptum okkar við aðrar þjóðir til framtíðar sem þjónar hagsmunum okkar. Í öðru lagi hefur hún annað skammtímamarkmið sem er að bregðast við ýmiss konar málum og vanda sem kemur upp. Varnarstefnan varðar t.d. farsæld okkar til lengri framtíðar að mestu leyti. Sama gildir um viðhorf til Evrópusambandsins. Mig langar aðeins, frú forseti, að fagna því að talsmaður Framsóknarflokksins í dag, hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, lýsti því yfir að Framsóknarflokkurinn hefði á nýlegum miðstjórnarfundum sínum tekið upp nákvæmlega sömu stefnu og Samfylkingin hefur varðandi Evrópusambandið, þ.e. að skilgreina samningsmarkmið, og í krafti þeirra að sækja um aðild að Evrópusambandinu og leggja síðan úrslit þeirra samningaviðræðna í dóm þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Reyndar var fróðlegt að hv. þm. Siv Friðleifsdóttir gat þess að innan Sjálfstæðisflokksins fyndi hún núna vaxandi stuðning við þá stefnu. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði að sjávarútvegsmál væru að vísu giska lítill þáttur í því sem ber í milli okkar og Evrópusambandsins. Ég hef nú skilið hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins á þann hátt að sjávarútvegsmálin væru nánast sá þröskuldur sem erfiðastur væri. Ég er algerlega ósammála þeim, t.d. hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni og hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni sem ná saman í þessu máli, að sjávarútvegsmálin séu einhver sérstakur þrándur í götu aðildar. Ég er að vísu sammála hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að fiskverndarmál hafa ekki verið í góðu lagi innan Evrópusambandsins, þau hafa þó farið batnandi. En ef Íslendingar telja að þeir hafi betri stefnu í því og jafnvel þá bestu í heiminum, eins og kemur þráfaldlega fram af hálfu bæði ráðherra og forseta landsins, þá ættum við að geta togað þá fram á við í þessum efnum. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að ef Íslendingar yrðu aðilar að Evrópusambandinu mundi það fljótt taka upp þau verndarviðhorf sem við höfum í ríkari mæli. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að engin hætta sé fyrir íslenskan sjávarútveg að ganga í Evrópusambandið.

Ef ég skoða í hverju hin sameiginlega fiskveiðistefna Evrópusambandsins felst þá felst hún í því að nýta sameiginlega stofna inna sameiginlegrar efnahagslögsögu. Þetta byggist á einhvers konar veiðireynslu í fortíðinni. En nú er það svo að það er engin sameiginleg efnahagslögsaga. Að því leytinu til erum við öðruvísi í stakk búnir en t.d. Norðmenn. Það er engin veiðireynsla sem á er að byggja fyrir aðrar þjóðir til að krefjast einhvers konar aflaheimilda innan lögsögu okkar. Ég vísa til þess að þegar t.d. Spánverjar sóttu um aðild að Evrópusambandinu á sínum tíma vildu þeir kalla til veiðiheimilda innan 200 mílna efnahagslögsögunnar sem átti að byggjast á fornri veiðireynslu þeirra á milli 12 og 200 mílnanna. Því var einfaldlega hafnað. Hvers vegna skyldi annað gilda um okkur?

Af því að þingmenn hafa vísað til ræðna yfirmanna og forustumanna í Evrópusambandinu langar mig til að upplýsa að Evrópunefndin átti fund með einum af helstu samningamönnum Evrópusambandsins á sviði sjávarútvegsmála fyrr á þessu ári. Í máli hans kom fram að hann taldi að Íslendingar mundu einskis missa hvað aflaheimildir varðar. Hann sagði að ef við værum harðir og klókir samningamenn væri mögulegt að við gætum fengið meira en við höfum í dag. Það er ekki mitt mat heldur mat þessa aðalsamningamanns Evrópusambandsins. Við spurðum hann sérstaklega út í þá hugmynd sem formaður Framsóknarflokksins varpaði fram á sínum tíma, hvort mögulegt væri að búið yrði til sérstakt fiskveiðistjórnarsvæði í Norður-Atlantshafi þannig að Íslendingar gætu sjálfir stjórnað fiskveiðum sínum. Svar hans var þetta: Ekkert er ómögulegt. Möguleikinn sem í þessu felst er undirstrikaður af því að Göran Persson, forsætisráðherra Svía, var hér á ferð árinu fyrr og hann var aðili að yfirlýsingu sem norrænu jafnaðarmannaflokkarnir sendu frá sér þar sem tekið var undir þessa hugmynd. Hann gerði það ekki fyrr en eftir að hann var búinn að ráðfæra sig við þá sem með þessi mál fara í Evrópusambandinu. Ég tel því alveg ljóst að þetta er ekki þrándur í götu. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að Evrópska efnahagssvæðið hafi reynst ákaflega vel og betur en margir töldu. Ég dáist líka að þeim sem fara með stjórnsýslu okkar varðandi Evrópusambandið þar sem þeir hafa sýnt þetta séríslenska framtak og úrræðasemi sem birtist í því að þeir hafa náð að þróa ákveðnar skemmri leiðir til þess að koma af stað ákvarðanatöku og hafa áhrif á aðgerðir í ríkari mæli en ég taldi að unnt væri.

Ég er líka þeirrar skoðunar, frú forseti, að atburðir hafi gerst í Evrópu sem í senn draga úr mikilvægi og nauðsyn þess að við göngum í Evrópusambandið en geri það líka auðveldara. Ég er þeirrar skoðunar að sá styr sem stóð í kringum fall stjórnarskrárinnar hafi gert það að verkum að skapast hafi ákveðin ringulreið í Evrópusambandinu og það er kannski ekki eins ákjósanlegt að ganga í það einmitt núna og áður. Á móti kemur að sú staðreynd að þegar stjórnarskráin féll þá kippti hún úr vegi ákveðnum örðugleikum fyrir okkur einmitt á sviði sjávarútvegs vegna þess að hefði hún verið samþykkt hefði verið erfiðara fyrir okkur að ganga inn í bandalagið.

Frú forseti. Ég hef í ræðum síðustu daga gagnrýnt hæstv. utanríkisráðherra harðlega fyrir linku sína gagnvart meintu fangaflugi um og yfir Ísland. Ég er þeirrar skoðunar, vegna þess að ég er sammála honum um að mannréttindi séu algild, að okkur beri að gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir þessa ósvinnu. Ég tel að hæstv. utanríkisráðherra hafi ekki gengið nógu langt. Það er ekki nógu langt gengið að koma hingað og lýsa því yfir að hann sé á móti því. Hann þarf að gera skýra grein fyrir því með formlegum hætti gagnvart bandarískum stjórnvöldum að svona vilja Íslendingar ekki. Og það var hlálegt þegar hæstv. utanríkisráðherra fór með tölu sína í fyrirspurnatíma í gær að á sama tíma lenti á Reykjavíkurflugvelli flugvél sem vitað er að hefur tengst fangaflutningum af þessu tagi. Svo kemur hæstv. ráðherra og lýsir því yfir að hún hafi verið tollskoðuð og ekki hafi fundist nein merki um fanga. Ég hygg að hægt væri að spyrja á móti: Var gengið úr skugga um að engin merki væru um að hún hefði verið notuð til einhvers konar fangaflutninga? Var gengið úr skugga um það áður en vélin lenti að yfirlýsingar væru um það sem hægt væri að sannreyna að hún hefði ekki verið notuð til slíkra hluta?

Ég bendi á það, frú forseti, að árið 1996 samþykktum við lög, breytingar á hegningarlögum, sem gera það að verkum að refsilögsaga í málum sem þessum nær út fyrir Ísland. Við höfum því skyldur til að reyna að upplýsa hvort menn hafi gerst brotlegir við lög á Íslandi með því að taka hugsanlega þátt í flutningum á föngum til landa þar sem líkur eru á að pyndingum sé beitt við yfirheyrslur. Stjórnarliðar koma hér hver um annan þveran og halda því fram að ekkert sé um þetta vitað og hæstv. utanríkisráðherra segir að þetta sé sögusveimur. Þó er upplýst í Svíþjóð að um íslenska lögsögu flaug vél með tvo menn sem rænt var um hábjartan dag á götum úti af því að talið var að þeir væru meintir hermdarverkamenn. Það kom síðan í ljós að svo var alls ekki og þurfti íhlutun sjálfs utanríkisráðherra Bandaríkjanna til þess að þeim yrði sleppt úr haldi. Það þýðir a.m.k. að þeir sem flugu þeirri vél hafa gerst sekir um mannrán, þeir hafa gerst brotlegir við lög sem gilda á Íslandi. Er þá ekki skylda okkar að fá þá menn framselda og draga þá fyrir lög og dóm ef mannréttindi eru algild eins og hæstv. utanríkisráðherra sagði áðan?

Ég tel hins vegar nauðsynlegt, frú forseti, að hæstv. utanríkisráðherra gefi yfirlýsingu um hvort enn sé í gildi sú yfirlýsing sem þáverandi forsætisráðherra gaf fyrir Íslands hönd 18. mars 2003 í tilefni af innrásinni í Írak. Sú yfirlýsing var aldrei blessuð eða samþykkt af ríkisstjórninni en í henni kemur fram allrúm heimild til þess að leyfa flug yfir Ísland, millilendingar á Keflavíkurflugvelli ef það tengdist baráttunni gegn hermdarverkum í heiminum og þessi heimild var ekki sérstaklega tengd stríðinu í Írak þó að tilefni útgáfu hennar hafi verið sú styrjöld. Ég spyr því hæstv. utanríkisráðherra: Er sú yfirlýsing sem Davíð Oddsson gaf út 18. mars 2003, og birtist á vef Hvíta hússins 23. mars sama ár, enn í gildi? Það er ekki síst vegna orðalags hennar og þeirrar rúmu heimildar sem þar kemur fram sem ég tel að Bandaríkjamenn hefðu vel getað túlkað hana þannig að þeir hefðu heimild íslensku ríkisstjórnarinnar til að fara um. Þess vegna er það svo yfirtak nauðsynlegt að hæstv. utanríkisráðherra taki á sig rögg, hristi af sér linkuskapinn og læpuskapinn og lýsi því yfir að það sé fortakslaust bannað að fangaflugvélar sem eru að flytja meinta hermdarverkamenn til landa þar sem pyndingum er hugsanlega beitt fái að lenda á Íslandi. Það þarf að liggja alveg skýrt fyrir út af þeirri tvíræðu yfirlýsingu sem ríkisstjórnin, afsakið, frú forseti, sem forsætisráðherra þáverandi í heimildarleysi vegna þess að hann hafði samþykki ríkisstjórnarinnar, gaf út. Mér finnst þetta skipta mjög miklu máli.

Það er annað sem mig langar líka til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra og tengist Írak. Ég gæti í sjálfu sér flutt aðra ræðu síðar í dag um það. 7. október sl. sagði hæstv. forsætisráðherra að stuðningur Íslands við innrásina í Írak hefði byggst á röngum upplýsingum og að það hefðu því verið mistök af Íslands hálfu að styðja innrásina í Írak. Mig langar, frú forseti að inna hæstv. utanríkisráðherra eftir tvennu: Hefur þessi yfirlýsing hæstv. forsætisráðherra sem birtist í Blaðinu verið rædd í ríkisstjórninni? Í öðru lagi: Er hæstv. utanríkisráðherra sammála hæstv. forsætisráðherra um að stuðningur við innrásina í Írak hafi byggst á röngum upplýsingum og hafi verið mistök?