132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:16]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá höfum við það. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson segir að sjávarútvegsmálin séu ekki sérstakur þrándur í götu að aðild að Evrópusambandinu, hvorki meira né minna. Þar sem það er augljóst að það fer í taugarnar á hv. þingmanni að talað sé um að viðkomandi aðili, eins og aðrir, hafi einhverja vanþekkingu á málum vildi ég bara spyrja, af því að hér var gefin út skýrsla, Fiskveiðiauðlindin, Ísland og Evrópusambandið, í september 2004 hvort hv. þingmaður hafi kynnt sér efni hennar og innihald. Ég spyr hvort þetta sé þá bara einhver þvættingur eða hvort það sé raunverulega þannig að hv. þingmaður hafi kynnt sér niðurstöðu þessarar skýrslu og sé þeirrar skoðunar að það sé í góðu lagi fyrir Íslendinga að gangast undir sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins.

Þingmaðurinn lét í það skína að ekki væri við hæfi að tala hér um vanþekkingu hjá þeim sem ráða hvað mestu um Evrópusambandið innan Samfylkingarinnar. Gott og vel. Segjum bara að þeir séu afskaplega vel upplýstir. Ég vek þá athygli á því að þessir þingmenn og forustumenn hafa aldrei mér vitandi talað um það stórkostlega atvinnuleysi sem er í Evrópusambandinu, aldrei talað um þann vanda sem menn horfa framan í og vita ekki hvernig á að taka á lífeyrismálunum. Það er ekki lítið vandamál, það er gígantískt vandamál. Og þeir hafa aldrei talað um þann vanda í Evrópusambandinu sem stærstu og öflugustu löndin eru að taka á, vanda sem snýr að þessum ósveigjanlega vinnumarkaði sem hefur gert það verkum að Evrópusambandið hefur ekki náð neinum þeim markmiðum sem það ætlaði sér, eins og t.d. með Lissabon-áætlun, ekki neinum þeim markmiðum. Ég bið bara hv. þingmann um að ræða kannski örlítið um þessa þætti næst þegar menn ræða um Evrópusambandið.