132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:24]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að lýsa því yfir að ég á mjög erfitt með að taka orð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar trúanleg í þessum efnum. Fram til þessa dags hefur engum tekist að sannfæra mig um það að við Íslendingar munum fá einhverja sérstaka undanþágu frá sameiginlegri fiskveiðistefnu Evrópusambandsins, engum, ekki einu sinni Franz Fischler, fyrrverandi sjávarútvegskommissar Evrópusambandsins, þegar ég spurði hann að þessu fyrir nokkrum árum.

Ég tek þessi orð hreinlega ekki trúanleg. Ég trúi því heldur ekki þó að hv. þm. Össur Skarphéðinsson segist hafa talað við einhverja sérfræðinga og þeir sagt honum eitthvað á þá leið að þeir geti ekki svarað spurningum um þetta efni, þ.e. hvort þeir telji að við þurfum undanþágu. Ég tel einfaldlega að þessir menn hafi ekki umboð til að vera með yfirlýsingar um eitt eða neitt hvað þetta varðar því að umboðið til að taka svona ákvarðanir, umboðið til að fara út í svona samningaviðræður, hlýtur að koma frá hinum ýmsu löndum innan Evrópusambandsins og þar eru ýmsir hagsmunahópar sem þrýsta mjög hart á það, munu a.m.k. eflaust þrýsta mjög hart á það að fá fiskveiðiréttindi við strendur Íslands.

Hér var talað um sögulega reynslu. Margar Evrópuþjóðir hafa sögulega reynslu af fiskveiðum við Ísland og ég hygg að þessar þjóðir hafi engu gleymt. Það eru margar þjóðir sem eiga mjög um sárt að binda í Evrópu vegna fiskveiðistefnu Evrópusambandsins sem hefur verið gersamlega mislukkuð, nágrannaþjóðir sem búa bara skammt undan, til að mynda Englendingar og Skotar. Breskir togarar eru að veiða við Ísland núna. Þeir eru að landa fiski núna fyrir austan og flytja hann út á markaði á Bretlandseyjum þar sem þessi fiskur keppir við fisk sem íslenskir sjómenn eru líka að reyna að selja. Fiskurinn sem bresku togararnir eru að veiða hér samkvæmt samningi við Íslendinga veldur verðfalli hjá okkar mönnum, og okkar menn eru mjög pirraðir yfir þessu.

Ég er alveg sannfærður um að í Evrópu þar sem ríkir viðvarandi skortur á hvítfiski mundi strax myndast mikil pressa á það að komast inn í gullkistuna hér við land og fá að veiða fisk.