132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:26]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er algerlega hárrétt hjá hv. þm. Magnúsi Þór Hafsteinssyni að það yrði mikill þrýstingur á það að komast inn fyrir efnahagslögsöguna og fá að veiða hér. Ég er algerlega sammála honum um það. En ég tel engin efnisleg rök fyrir þær þjóðir sem slíkum þrýstingi beita til að fá slíkt.

Hv. þingmaður talar um veiðireynslu. Hversu langt aftur fara menn þegar þeir meta slíka veiðireynslu? Það eru fordæmi fyrir því. Hv. þingmaður getur skoðað þau, t.d. fordæmin þegar Spánverjar sóttu um aðild að Evrópusambandinu. Ég man ekki lengur hvaða ár það var. Þar fyrir utan verða menn að vera klárir á því út á hvað hin sameiginlega fiskveiðistefna Evrópusambandsins gengur. Grófu drættirnir eru þessir: Sameiginleg nýting sameiginlegra auðlinda innan sameiginlegrar efnahagslögsögu. Það er engin sameiginleg efnahagslögsaga. Grunnurinn er fallinn. En það eru hins vegar mikilvægir flökkustofnar sem skipta okkur miklu máli sem eru utan efnahagslögsögunnar eða ganga út fyrir hana og inn í efnahagslögsögu annarra ríkja.

Um nánast alla þessa stofna núna er búið að semja með aðild Evrópusambandsins, ekki alla en þó þannig að þeir hagsmunir eru varðir. Ég var að vísu ekki sammála því hvernig hæstv. núverandi forsætisráðherra samdi á sínum tíma af sér fyrir Íslands hönd varðandi það mikilvægasta að mínum dómi, norsk-íslensku síldina, en ég segi einfaldlega að það eru engin efnisleg rök til að fullyrða þetta fyrir fram.

Ég er breyskur eins og aðrir menn og það er hugsanlegt að ég komist ekki alltaf að réttri niðurstöðu. En hvað er í hættu? Þetta mundi koma fram í samningaviðræðum milli Íslands og Evrópusambandsins og ég ætla að lýsa því yfir til að róa hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson að ég mundi aldrei mæla með samþykkt slíkra samninga ef samningamenn kæmu heim og væru búnir að veita slíkar veiðiheimildir innan fiskveiðilögsögunnar. (Forseti hringir.) En ég tel að til þess komi ekki.