132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:30]
Hlusta

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni fyrir að vera svo einlægur í afstöðu sinni til Evrópusambandsins. Það verður ekki af honum tekið að hann vill að Ísland gangi í Evrópusambandið og afsali sér hluta af því sjálfstæði sem menn börðust fyrir fyrr á árum og því fullveldi sem mikið hefur verið haft fyrir. Ég heyri ekki betur en að hv. þingmaður Össur Skarphéðinsson sé tilbúinn til að gera lítið úr baráttu þeirra sem börðust fyrir sjálfstæði þessarar þjóðar með málflutningi sínum.

En hann sagði annað sem var mjög athyglisvert, þ.e. að inngöngu Íslands í ESB fylgdi engin hætta fyrir íslenskan sjávarútveg. Þetta er tímamótayfirlýsing og mjög merkileg. Hann vísaði til veiðireynslu. Hvort sem Íslendingar fengju tímabundnar undanþágur frá sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins eða þyrftu að taka upp sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins þá mundi það þýða mikið afhroð fyrir íslenskan sjávarútveg. Í mínum huga er enginn vafi á að Íslendingar þyrftu að taka upp sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins.

Við hvað styð ég þessar fullyrðingar mínar? Ég styð þær við sjónarmið sem m.a. koma fram í ritgerð sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson vísaði hér til, við fræðirit Stefáns Más Stefánssonar, prófessors í lögum og Evrópurétti, og Óttars Pálssonar hæstaréttarlögmanns og við skoðanir Franz Fischlers sem lýsti því yfir á fundi sem ég átti með honum í Montreux í Sviss, ekki alls fyrir löngu, að það væri ljóst að Íslendingar þyrftu að taka upp sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins gengju þeir þar inn.

Ég verð nú að segja að ég hef tilhneigingu til að trúa þessum mönnum frekar en hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni. Ég vona að hann virði það við mig. En það er morgunljóst, í mínum huga, (Forseti hringir.) að það yrði íslenskum sjávarútvegi ekki til hagsbóta að þurfa að sæta þeim reglum sem gilda um sjávarútveg í Evrópusambandinu.