132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:38]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir þá skýrslu sem hann flutti hæstv. Alþingi hér í dag. Ég vil líka þakka fyrir það að föst hefð sé fyrir því að hafa sérstakan dag tileinkaðan umræðum um utanríkismál. Að sjálfsögðu er erfitt að fara vel yfir sviðið án þess að tipla á nokkrum málum þar sem utanríkismál eru víðfeðmur málaflokkur og snerta alla okkar tilveru ef þannig er litið á það. En eftir sem áður vil ég þakka hæstv. ráðherra fyrir skýrslu hans og ég vil taka undir orð þeirra sem látið hafa þá skoðun í ljós að skýrslan er frekar yfirlit yfir það sem hefur gerst á árinu en ekki bein stefnumótun fyrir framtíðina, hvernig ríkisstjórnin hæstv. mun fylgja eftir utanríkisstefnu sinni, ef við göngum út frá lengd kaflanna eða þeim tíma sem gefinn er í málefnið.

Frú forseti. Utanríkismál snerust áður fyrr að mestu um varnarmál og markaði fyrir íslenskar útflutningsvörur og svo það sé alveg skýrt, vegna þess að hér hefur verið rætt töluvert um afstöðu hinna ýmsu flokka til NATO og til hersins á Miðnesheiði, þá held ég að það sé öllum ljóst að stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er alveg skýr. Við viljum úr NATO. Við viljum úr hernaðarbandalagi, við viljum hafa landið herlaust. Þessi stefna okkar byggist ekki á einhverri gamalli alþýðubandalagssýn, eins og hér hefur verið nefnt. Hún byggist á friðarstefnu, mannúðarstefnu og á þeirri stefnu sem ég held að sé að ryðja sér til rúms, og þá sérstaklega hjá ungu fólki um heim allan, að draga úr hernaðarbrölti og vinna að friði í heiminum með öðrum ráðum en vígbúnaðarvélum.

Það er ljóst að við erum þátttakendur í alþjóðavæðingunni svonefndu og málefni hinna fjarlægu landa og þjóða koma því inn á okkar borð. Það eru mál eins og mannréttindi, fátækt, félagsleg staða og umhverfismál. Þessi mál skipa mikilvægari sess nú en áður þegar rætt er um utanríkismál. Við erum aðilar að Alþjóðaviðskiptastofnuninni og við berum því að nokkru leyti ábyrgð á þeirri stefnu sem þau miklu samtök berjast fyrir. Ég tel að til þess að Alþjóðaviðskiptastofnunin þjóni sínum tilgangi verði áherslur að breytast og færast frá hinum viðskiptalegu og kapitalísku sjónarmiðum yfir í félagsleg sjónarmið og að Alþjóðaviðskiptastofnunin verði nýtt til að auka jöfnuð og bæta stöðu fátækra þjóða og heimsálfa umfram það sem gert hefur verið.

Hagsmunir iðnríkjanna og hinna efnuðu ríkja hafa ráðið för. Viðskiptastofnunin hefur miklu frekar staðið vörð um stöðu hinna ríkari þjóða á kostnað hinna fátæku. En þetta verður að breytast ef við viljum efla von til friðsamlegra lífs á jörðinni. Hin mikla gjá, sem hefur breikkað, milli fátækra og ríkra þjóða, ekki bara af efnahagslegum heldur ekki síður af félagslegum toga, mun leiða til mikilla hörmunga í náinni framtíð, ef samtök eins og Alþjóðaviðskiptastofnun breyta ekki um kúrs og nýta krafta sína til að jafna stöðu þessara heimsálfa.

Það er alveg ljóst að misskipting innan landa, eins og hér í Evrópu, er að brjótast fram. Atburðirnir í Frakklandi, sem blossuðu upp af litlum neista, eru orðnir að stóru báli sem breiðist nú um Evrópu. Kúgaður minni hluti innflytjenda rís gegn langvarandi niðurlægingu, atvinnuleysi og fátækt — ungmenni sem ekki sjá fram á að komast nokkurn tíma til mennta eða hafa viðurværi af atvinnu. Við hefðum getað sagt okkur það sjálf að slík þróun myndi leiða til uppreisnar og vandamála og við eigum að líta okkur nær og ígrunda alvarlega þá stöðu sem innflytjendur eru í hér á landi. Við eigum að hafa atburðina í Frakklandi sem víti til varnaðar og einhenda okkur í að styrkja stöðu þeirra fjölmörgu innflytjenda sem eru orðnir íslenskir ríkisborgarar eða vinna hér á landi.

Alþjóðavæðingin hefur tvær hliðar og það getur því skipt sköpum fyrir jákvæða þróun og friðvænlegri heim hvort jafnvægi næst á milli efnahagslegra og félagslegra þátta í alþjóðasamningum. En eins og ég sagði áðan hefur hin kapítalíska efnahagslega hlið verið mun sterkari fram til þessa.

Hæstv. forseti. Í ræðu og skýrslu hæstv. utanríkisráðherra, nefndi hann ástandið í Írak. En ég saknaði þess að því miður kom hæstv. utanríkisráðherra lítið inn á ástæður innrásarinnar og þar af leiðandi þótti hæstv. ráðherra ekki ástæða til að biðjast afsökunar fyrir hönd íslensku þjóðarinnar á því að hafa látið blekkjast af falsrökum og fölsuðum skýrslum og upplognum upplýsingum um stöðu mála í Írak, falsskýrslu sem gaf bæði hagsmunaaðilum og Bandaríkjastjórn ástæðu til innrásar undir fölsku flaggi, þ.e. til ólögmætrar innrásar. Það er að mínu mati óásættanlegt að hæstv. utanríkisráðherra skuli ekki fara að dæmi hæstv. forsætisráðherra Breta og fleiri sem hafa beðist afsökunar á að láta blekkjast, þó svo að Bretar standi enn þá að því að hafa her í Írak. En eins og allir vita eru uppi háværar kröfur um að þeir biðjist ekki eingöngu afsökunar á að hafa stuðlað að árás inn í Írak, heldur vill breska þjóðin að breski herinn verði dreginn þar út.

Það er ekkert til sem heitir fyrirbyggjandi stríð. Það eru til fyrirbyggjandi aðgerðir, það er hægt að styrkja þær og stuðla að því með því að efla mannréttindi og félagslega stöðu fólks sem býr við misrétti og í þjóðum þar sem harðstjórn ríkir og lýðræði er ekki virt. Þannig eigum við að forða því að verði átök. En það er ekkert til sem heitir fyrirbyggjandi stríð. Stríð leiðir af sér stríð og hörmungar eins og við erum að upplifa aftur og aftur. Það er alveg ljóst að Bandaríkjastjórn hefur verið þar í fararbroddi og ríkisstjórn Íslands hefur verið allt of auðsveip til stuðnings Bandaríkjastjórn í þessu máli.

Það er farið að reyna að skilgreina hugtakið hryðjuverkamaður. Það er eðlilegt að það reynist erfitt, bæði Sameinuðu þjóðunum og öðrum að finna skilgreiningu á því, vegna þess að hvenær er uppreisn? Hvenær eru óeirðir? Hvenær verða þær að hryðjuverkum? Hver er skilgreining á því? Ég trúi því að við fordæmum öll hryðjuverk sem slík. En það er líka hægt að hafa hugtakið og skilgreininguna svo víða að saklausir einstaklingar fái að líða fyrir það og það sé hægt að handtaka saklaust fólk í nafni þess að verið sé að draga úr hættu á hryðjuverkum. Það hefur sannast að Bandaríkjastjórn stendur fyrir slíkum handtökum og það bendir allt til þess að íslensk flughelgi og flugvellir á Íslandi hafi verið notaðir til slíkra flutninga og það ber að fordæma. Ég tek undir orð þeirra þingmanna sem hér hafa skorað á hæstv. utanríkisráðherra að fordæma slíkt, hafi það átt sér stað, og gefa tafarlaust út þá yfirlýsingu að það verði ekki liðið.

Hæstv. forseti. Í þeim stutta tíma sem ég á eftir vil ég nefna tvö þingmál sem mér finnst skipta miklu máli og eru í þeim anda sem ég nefndi að stuðla að friði og uppbyggingu í stríðshrjáðum löndum. Það er þingsályktunartillaga um kaup og rekstur á færanlegri sjúkrastöð í Palestínu þar sem fyrsti flutningsmaður er Jónína Bjartmarz. Og eins þingsályktunartillaga um að mótmæla byggingu aðskilnaðarmúrsins í Palestínu. Aðskilnaðarmúrinn í Palestínu er ólöglegur, hann á að fordæma. Það höfum við ekki gert með nógu áberandi hætti né hvatt til þess að þjóðir heims geri það. Ísraelsmenn halda áfram byggingu þessa mikla múrs í skjóli Bandaríkjastjórnar og það er alveg ljóst að það er búið að mynda risastórt gettó á Gaza-svæðinu sem áður var allt hertekið land af Ísraelsmönnum. En sem betur fer hafa friðarumleitanir og friðarviðræður leitt til að Ísraelsmenn hafa farið út af svæðinu með hermenn og ísraelska íbúa á þessu svæði. En eftir stendur að svæðið er eins og stórt gettó, þar sem Palestínumenn geta ekki farið frjálsir út af svæðinu, hvorki á landi né láði eða notað þann flugvöll sem er inni á svæðinu. Það er ljóst að aðskilnaðarmúrinn á að einangra Palestínumenn uppi í Gólanhæðum og þar eru Ísraelsmenn að ásælast vatnsbirgðir Palestínumanna og það er ástæðan og orsökin fyrir því að þeir (Forseti hringir.) setja landnemabúðir inn á svæðið.