132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:16]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður vék sérstaklega að ræðu minni frá því í morgun varðandi Evrópusambandið. Það er nú ekki þannig að eitthvert kapphlaup sé í gangi um að ganga í Evrópusambandið, það er alls ekki þannig. En í ræðu minni dró ég fram þá staðreynd að unga fólkið í flokknum hefur jákvæðari stefnu gagnvart Evrópusambandinu en við höfum áður séð.

Ég get í stuttu andsvari sagt við hv. þm. Jón Bjarnason að Samband ungra framsóknarmanna ályktaði á sínu síðasta sambandsþingi. Ég ætla ekki að lesa alla þá ályktun en í henni stendur, með leyfi virðulegs forseta:

„Það liggur hér fyrir að Íslendingar afsala sé meiru af sjálfsákvörðunarrétti utan ESB en innan. Því telur þing SUF að það þjóni hagsmunum Íslands að hefja nú þegar vinnu við samningsmarkmið með aðild að ESB í huga og skal sú vinna hefjast að frumkvæði forsætisráðuneytisins.“

Ungliðarnir hafa sem sagt mótað þessa stefnu á sambandsþingi sínu. Í þessari ályktun segir líka að án viðunandi niðurstöðu úr samningsviðræðum leggist SUF alfarið gegn inngöngu í ESB. En unga fólkið vill skoða þessi samningsmarkmið með aðild í huga. Það kemur líka fram í ályktun frá Félagi ungra framsóknarmanna í Reykjavík suður eftir flokksþingið.

Ég ætla ekki heldur að lesa þá ályktun alla en í lok hennar segir:

„Í umræðum á nýloknu flokksþingi Framsóknarflokksins var áberandi hve stór hluti ungs fólks var jákvæður gagnvart hugmyndum um inngöngu í ESB. Gefur það vísbendingu um að krafa nýrrar kynslóðar framsóknarmanna sé að Ísland skuli ganga til liðs við aðrar þjóðir Evrópu á vettvangi ESB.“

Það er því alveg ljóst að unga fólkið í flokknum hugsar um þessi mál. En það er alls ekki þannig að framsóknarmenn hafi ákveðið að ganga í ESB og ekkert kapphlaup er í gangi hvað það snertir. Við erum hins vegar að skoða samningsmarkmið eins og flokksþingið ákvað.