132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:21]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Það er ánægjulegt að heyra að hv. þingmaður gleðst yfir því að ég er að reyna að upplýsa hver stefna okkar er og hvað hefur verið til umræðu á vettvangi flokksþingsins og í flokknum.

Í aðdraganda flokksþingsins komu fram drög að ályktun sem var miklu jákvæðari gagnvart Evrópusambandinu en niðurstaðan varð. Hópurinn sem undirbjó flokksþingið setti fram nokkuð brattan texta sem féll ekki í góðan jarðveg á flokksþinginu. Þeim texta var því breytt og niðurstaðan varð ekki eins jákvæð og ályktunardrögin sem komu inn. Það er því alveg ljóst að í Framsóknarflokknum er talsverð andstaða við Evrópusambandið, það held ég að hv. þm. Jón Bjarnason viti og flestir aðrir þingmenn. Flokkurinn er ekki upp til hópa jákvæður gagnvart Evrópusambandinu.

Ég dró það fram að unga fólkið virðist vera mun uppteknara af þessu máli, það fólk sem er virkt í flokksstarfinu. Það endurspegla þær ályktanir sem ég hef rætt hér og þá er kannski mest mark takandi á ályktun frá Sambandi ungra framsóknarmanna, sem eru heildarsamtökin. Það er kannski vafasamara að vísa í einstakar samþykktir frá einstökum félögum. En sambandsþing ungra framsóknarmanna telur að það eigi að vinna við samningsmarkmiðin með aðild að ESB í huga. Þau hafa þá stefnu en það er ekki stefna Framsóknarflokksins. Þar er ekki notað orðalagið „með aðild í huga“ heldur „með hugsanlega aðild í huga“. Við erum ekki búin að ákveða að fara í aðildarviðræður en við viljum skilgreina samningsmarkmiðin og við viljum gjarnan ræða þessi mál.