132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:25]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (F):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir ræðu sína og innlegg í þessa umræðu um utanríkismál. Þar bar margt á góma sem ástæða er til að taka til umfjöllunar hér á hinu háa Alþingi og ég vil víkja að fáeinum atriðum sem komu fram í ræðu hæstv. ráðherra.

Í fyrsta lagi vil ég fagna því sem fram kemur í upphafi ræðunnar að samstaða hafi ríkt hér á landi um framboð Íslands til setu í öryggisráðinu og vænti þess að deilur sem stóðu um það mál fyrr á þessu ári hafi verið leiddar til lykta. Ég fagna því að menn geti undið bráðan bug að því að vinna að stuðningi við framboð Íslands til setu í öryggisráðinu og ekki verði um að ræða misstemmingar í því máli eins og heyra mátti um tíma.

Í öðru lagi tek ég undir það sem fram kemur hjá hæstv. ráðherra að trúverðugleiki Sameinuðu þjóðanna veltur á því að stofnanir samtakanna geti tekið á brýnum vandamálum. Þess vegna er t.d. nauðsynlegt að gera breytingar á öryggisráðinu og skipan þess. En trúverðugleiki Sameinuðu þjóðanna veltur líka á því að aðildarþjóðirnar virði stofnsáttmála samtakanna og fari eftir þeim leikreglum sem þær hafa komið sér saman um en taki ekki reglurnar í eigin hendur eins og gerðist í Íraksstríðinu með slæmum afleiðingum fyrir Sameinuðu þjóðirnar og fyrir þau ríki sem að því stóðu. Það er óþarft að fara nánar yfir Íraksmálið, aðdraganda þess og rökstuðning fyrir því að ákveðin ríki ákváðu upp á sitt eindæmi, án stuðnings samtakanna, að hefja innrás í Írak, en ég hygg að mönnum eigi að vera það ljóst að þar var ekki stigið gæfuspor, hvorki fyrir Sameinuðu þjóðirnar né fyrir þau ríki sem að því stóðu.

Það er mikilvægt að menn nái samkomulagi á grundvelli þess ramma og leikreglna sem menn hafa komið sér saman um. Ef leikreglurnar eru að einhverju leyti ófullnægjandi eiga menn að vinna að því að breyta þeim. Ég get svo sem tekið undir það, eins og fram kom í máli mínu um öryggisráðið, að vissulega er ástæða til að endurskoða ýmsa þætti í starfsemi Sameinuðu þjóðanna.

Í þriðja lagi vil ég geta þess að mér finnst mjög nauðsynlegt að Alþingi ræði stöðu hersins hér á landi og samninginn við Bandaríkjamenn um varnir landsins. Málið hefur þróast með þeim hætti að það er nokkuð ljóst að sú skoðun er mjög víðtæk í Bandaríkjunum eða hjá bandarískum stjórnvöldum að ekki sé þörf á þeim her hér á landi, a.m.k. ekki í þeim mæli sem verið hefur og hugsanlega yfir höfuð engin þörf á her af þeirra hálfu. Þetta mat þeirra liggur nokkuð ljóst fyrir og við þurfum að ræða málin af okkar hálfu og skýra það hvert okkar mat er við þær aðstæður sem menn telja að ríki í heiminum.

Það er a.m.k. eitt sem er ástæða til að fagna í þessum efnum, því mati Bandaríkjamanna og eflaust fleiri sem byggir á því að menn álíta að friðvænlegt sé í þessum heimshluta og að Íslendingum stafi ekki ógn af öðrum þjóðum. Það er vissulega ástæða til að draga það fram og fagna því mati. Að mínu mati hljótum við að móta stefnu okkar dálítið, að verulegu leyti reyndar, út frá slíku mati. Það var upphaflega aldrei meiningin að hafa her hér á landi ef ekki væri talin nein hætta sem steðjaði að landinu. Ég minni á yfirlýsingar allra stjórnmálaflokka um það efni á sínum tíma og heitstrengingar um það að her væri hér á landi aðeins öryggisins vegna og aðeins svo lengi sem þurfa þætti.

Ég vil svo, virðulegur forseti, víkja að Evrópusambandinu og umræðum um aðild Íslendinga að því. Þegar menn taka slíkt mál til umræðu — sem eðlilegt er að gera því að málið er stórt og eðlilegt að Íslendingar, eins og aðrar Evrópuþjóðir, velti því fyrir sér hvort þeir eigi erindi inn í Evrópusambandið og hvaða ávinning þeir kunni að hafa af aðild og hvaða ókostir kunni að fylgja — þurfa þeir auðvitað fyrst að gera sér grein fyrir því hvaða Evrópusamband um er að ræða. Hvers konar Evrópusamband er það sem menn tala um að ætla að ganga inn í? Inn í hvaða Evrópusamband á Ísland að ganga? Er það það Evrópusamband sem er í dag eða er það það Evrópusamband sem mikill vilji er til meðal ýmissa stjórnmálamanna og embættismanna, Evrópusambandið sem borið var undir kjósendur í nokkrum löndum Evrópu fyrr á þessu ári þegar þeir voru beðnir um að samþykkja hina svokölluðu stjórnarskrá Evrópusambandsins? Er það það Evrópusamband sem menn eru að tala um að við eigum hugsanlega að ganga inn í?

Svarið hlýtur auðvitað að vera: Ef við erum að hugsa um að ganga inn í eitthvert samband er það eins og við teljum að það verði á komandi árum en ekki eins og það er nú. Og hvað er það sem menn stefna að, virðulegi forseti, í þessum efnum? Jú, menn stefna að einhverju sambandi sem hefur stjórnarskrá. Hvað er það sem hefur stjórnarskrá? Það eru ríki, þau hafa stjórnarskrá. Það er ein stjórnarskrá fyrir Ísland og ein fyrir hverja aðra Evrópuþjóð, og þegar menn setja sér stjórnarskrá fyrir Evrópusambandið eru menn að segja: Við erum að stefna að einu ríki. Þegar menn stefna að einu ríki stefna menn að mikilli miðstýringu, mikilli samþjöppun valds og það Evrópusamband skulum við þá ræða hvort mönnum finnist álitlegt að Ísland gangi inn í.

Ég segi nú, virðulegur forseti, að það er mikil trú sem menn hafa á stöðu Íslands og afli ef þeir halda að Ísland hafi mikil áhrif, ef nokkur, inni í slíku Evrópusambandi sem telur eitthvað á fimmta hundrað milljónir manna. Það er eins og, mér liggur við að segja, virðulegur forseti, krækiber í ónefndum stað. Það er ekki líklegt að menn fái miklu þokað um mál fyrir hagsmuni sína og sinnar þjóðar þegar þeir eru komnir inn í slíkt bandalag eða sambandsríki.

Ég held að menn þurfi ekki að hugleiða málið mikið til að gera sér grein fyrir því að í stjórnríkjasambandi með sameiginlega stjórnarskrá og ýmsan sameiginlegan rétt og skyldur eru auðvitað stór hagsmunamál eins og auðlindir á sameiginlegu borði. Viðfangsefnið er að dreifa ávinningnum af auðlindunum, arðinum af þeim til allra íbúa sambandsins, ekki bara til þess ríkis sem auðlindin er í. Það er bara blekking að halda því fram að menn gætu innan Evrópusambands framtíðarinnar, ef það verður til, haldið öllum arði af sjávarútveginum íslenska innan íslenska efnahagskerfisins. Það er bara blekking. Menn eiga ekki að reyna að halda því fram vegna þess að það mun ekki verða svo.

Ef við horfum á kennitölur um stöðu íslenska þjóðfélagsins, efnahag íslensku þjóðarinnar, styrk íslenska hagkerfisins og berum saman við Evrópusambandslöndin spyr ég: Eftir hverju erum við að sækjast? Hvað er það sem á að bæta okkur í þessum efnum þar sem atvinnuleysið er fjórfalt til fimmfalt meira en hér á landi? Ég held, virðulegur forseti, að það verði erfitt fyrir þá sem vilja tala fyrir því að ganga inn í sambandsríki framtíðarinnar og sannfæra íslensku þjóðina um að það séu einhverjir hagsmunir í því máli sem færi lífskjör þjóðarinnar fram á veginn.

Það gengur meira að segja ekki vel að sannfæra íbúa einstakra Evrópusambandslanda um fyrirheitna landið. Frakkar felldu stjórnarskrá Evrópusambandsins með 10 prósentustiga mun í maílok á þessu ári. Hollendingar felldu þessa stjórnarskrá líka með yfirgnæfandi mun, þ.e. 24 prósentustiga mun, nokkrum dögum seinna. Málið er út af borðinu í bili. Menn eru að hugsa sitt ráð í þessu bandalagi og velta fyrir sér hvernig þeir eigi að geta komist áfram með það þrátt fyrir þessa andstöðu. Þannig er umræðan hjá ráðamönnum í Evrópusambandinu um þessar mundir.

Ég vil svo víkja að Evrópustefnu Framsóknarflokksins sem hér hefur nokkuð borið á góma. (Gripið fram í.) Hv. þm. Jón Bjarnason getur helst ekki komið upp í ræðustól öðruvísi en að nefna Framsóknarflokkinn í annarri hverri setningu, (JBjarn: Og fyrrverandi framsóknarmenn.) og fyrrverandi framsóknarmenn í hinni setningunni. Það er dálítið merkilegt að maður sem hefur lagt fyrir sig stjórnmál á einhverjum pólitískum grundvelli sem hann aðhyllist skuli eyða öllum sínum kröftum í að ræða um annan stjórnmálaflokk sem hann aðhyllist ekki. Ég held að miðað við úrslit síðustu alþingiskosninga megi draga þá ályktun að hv. þingmanni hafi mistekist hrapallega við að sannfæra kjósendur um að sú stefna sem hann boðar eigi nokkurt erindi til kjósenda. Hann var innan við hálfdrættingur á við Framsóknarflokkinn í þeim kosningum þannig að ég held að hann ætti ekki að hælast svona mikið um eða hafa svona miklar áhyggjur af Framsóknarflokknum. Ég held að hann ætti fyrst og fremst að hafa áhyggjur af sínum flokki og árangursleysi hans. Það er ekki nóg að vinna í könnunum á milli kosninga, menn þurfa nefnilega að vinna í kosningum líka. Það er það eina sem gildir.

Það er fljótgert að rekja Evrópustefnu Framsóknarflokksins, hún er ákaflega skýr. Framsóknarflokkurinn er andvígur aðild að Evrópusambandinu. (Gripið fram í: Fínt.) (Gripið fram í: Ha?) Andvígur aðild að Evrópusambandinu. Það kom ákaflega skýrt fram á síðasta flokksþingi og fyrri flokksþingum. Ég bara bið hv. þingmann að hafa það alveg á tæru og efast ekki um það.

Hins vegar hafa menn unnið á grundvelli Evrópuskýrslu sem ákveðinn starfshópur tók saman fyrir nokkrum árum og þar hefur verið lagt til að menn vinni að því að skilgreina samningsmarkmið. Það kom t.d. fram á flokksþinginu 2003 og aftur á flokksþinginu 2005. Það er ekki nema eðlilegt að menn á hverjum tíma fylgist með því hvaða markmið menn ættu að hafa í samskiptum sínum við Evrópusambandið, eftir hverju menn ættu að sækjast og hvað það er sem þeir ættu að varast, hvaða ávinning menn gætu haft og hvern ekki. Það er eðlilegt að fylgjast með því á hverjum tíma hvernig sú staða er og það er það sem ályktað hefur verið um í þessum efnum, virðulegi forseti. En það að vinna að mótun samningsmarkmiða er ekki ákvörðun um að undirbúa aðildarviðræður, ekki ákvörðun um að fara í aðildarviðræður og ekki ákvörðun um að ganga inn í Evrópusambandið. (Gripið fram í: Til hvers … aðild …?) Eins og ég rakti, til þess að menn geri sér grein fyrir kostunum á borðinu. (Gripið fram í.)

Ef menn skoða samþykkt síðasta flokksþings Framsóknarflokksins liggur það fyrir (JBjarn: Prófa að biðja …?) að áður en menn ætli að undirbúa aðildarviðræður þurfi að fá samþykkt á flokksvettvangi fyrir því. Í öðru lagi, áður en menn ætli að sækja um aðild þarf að kalla saman flokksþing og fá samþykkt fyrir því. Flokkurinn hefur engin skref stigið sem hægt er að túlka sem vilja til þess að ganga inn í Evrópusambandið. Hins vegar liggur ljóst fyrir að auðvitað eru til flokksmenn sem hafa áhuga á því (Forseti hringir.) en það er ekki stefna flokksins.