132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Aðgerðir í málefnum heimilislausra.

91. mál
[10:33]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Forseti. Í svari til mín á 131. löggjafarþingi fyrir nákvæmlega ári síðan um málefni heimilislausra kom fram hjá hæstv. félagsmálaráðherra að hann hefði haldið samráðsfund með fulltrúum Félagsþjónustunnar í Reykjavík, Kópavogi og Hafnarfirði og á þann fund hefði einnig komið fulltrúi frá heilbrigðisráðuneytinu og lögreglunni í Reykjavík til að ræða málefni heimilislausra.

Niðurstaðan varð sú að ef leysa ætti vandann, sem væri margþættur, yrði félags- og heilbrigðiskerfið ásamt lögreglu að vinna saman. Aðilar stofnuðu því samráðsfund til að skilgreina hverjir féllu undir þennan hóp og í framhaldi af því átti að setja fram áætlun um samstillt viðbrögð til að koma í veg fyrir heimilisleysi á höfuðborgarsvæðinu.

Á þessum tímapunkti fyrir ári síðan upplýsti ráðherra í svarinu til mín að sameiginleg skilgreining lægi fyrir um það hverjir féllu undir þennan hóp og verið væri að taka saman upplýsingar um viðkomandi einstaklinga sem að mati hópsins búa við heimilisleysi, stöðu hvers og eins, þá aðstoð sem viðkomandi fengi og meginorsök vanda hvers og eins en fyrir lá að nánast allur þessi hópur heldur til í Reykjavík. Í svari ráðherra segir orðrétt:

„Þegar þessar upplýsingar liggja fyrir verður mögulegt að leggja til aðgerðir og tillögur um samráð með það að markmiði að koma í veg fyrir að fólk verði heimilislaust á höfuðborgarsvæðinu. Það er stefnt að því að samráðshópurinn skili mér skýrslu eigi síðar en 15. janúar nk.“

Hér er verið að vitna í 15. janúar á þessu ári.

Nú eru tíu mánuðir eða meira síðan umrædd skýrsla og aðgerðaráætlun áttu að liggja fyrir og því er fyrirspurn beint til hæstv. ráðherra:

„1. Hefur samráðshópur um úrlausn í málefnum heimilislausra skilað niðurstöðu og þá hvaða, en skýrsla hópsins átti að liggja fyrir eigi síðar en 15. janúar sl.?

2. Liggur fyrir tímasett áætlun eða tillögur að aðgerðum til að taka á vanda heimilislausra og hefur verið gert ráð fyrir fjármagni til úrlausna?“

Ég held, virðulegi forseti, að það sé til mikils vansa ef á annað hundrað manns eru heimilislausir og eiga hvergi höfði sínu að halla hér í borginni en sá fjöldi kom einmitt fram í svari ráðherra til mín og það kom m.a. fram að á annan tug þessara einstaklinga væru líka hættulegir umhverfi sínu. Það er orðið mjög brýnt að taka á þessu máli, virðulegi forseti.