132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Aðgerðir í málefnum heimilislausra.

91. mál
[10:36]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég skipaði samráðsnefnd um málefni heimilislausra á síðasta ári. Í hópnum voru fulltrúar félagsmálaráðuneytis, heilbrigðisráðuneytis og dómsmálaráðuneytis, sem komu frá lögreglunni í Reykjavík, auk fulltrúa Félagsþjónustunnar í Reykjavík, í Kópavogi og Hafnarfirði.

Samráðshópurinn hefur nú skilað mér skýrslu með tillögum. Hópurinn komst eftir nokkra umhugsun að þeirri niðurstöðu að skilgreining á heimilisleysi nái til þeirra sem búa við húsnæðisleysi. Með því takist að beina sjónum að þeim sem búa við bágastar aðstæður. Með öðrum orðum að fjallað sé um þá sem ekki eiga þak yfir höfuðið, eiga ekki í nein hús að venda.

Áður hafði komið fram tilhneiging frá sveitarfélögunum til að telja með heimilislausum fólk sem í raun hefði húsaskjól en byggi við erfiðar aðstæður. Hér er því einkum átt við útigangsfólk sem heldur til á götum Reykjavíkurborgar og gistir eina nótt í einu á hverjum stað í gistiskýli, yfirgefnu húsnæði hjá lögreglunni eða inni á félögum sem oft búa við slakan húsakost. Í ljós kom að langflestir sem teljast húsnæðislausir á Íslandi dveljast í Reykjavík. Sumarið 2004 reyndust alls 47 einstaklingar vera húsnæðislausir, mun færri en áður var talið, þar af fjórar konur, en í janúar 2005 voru þeir 49 og þar af 5 konur. Einungis var um einn einstakling að ræða í Kópavogi og annan í Hafnarfirði. Þess vegna byggjast tillögur samráðshópsins á úrræðum í Reykjavík.

Um er að ræða 45–55 manns sem hvergi eiga höfði sínu að halla. Einkenni hópsins eru nokkuð skýr. Flestir eru karlmenn milli þrítugs og fimmtugs, eru einhleypir og margir einstæðingar. Þeir búa á götunni, í gistiskýlum eða eru inni á meðferðarstofnunum. Þeir hafa oft langvarandi samskipti við Félagsþjónustuna í Reykjavík.

Ekki liggja fyrir nákvæmar upplýsingar um heilsufar þeirra. Öryrkjar eru 35 af hópnum eða 74% sem bendir til slakrar heilsu. Opinberar upplýsingar um ástæður og örorkumat liggja ekki fyrir en í ljós hefur komið að langflestir virðast með mikla geðræna kvilla og eru tvígreindir sem þýðir að þeir glíma bæði við fíkn og alvarlegar geðraskanir. Það má benda á að samkvæmt tölulegum upplýsingum frá nokkrum Evrópulöndum einkennist heilsufar húsnæðislausra af mikilli áfengis- og fíkniefnaneyslu, geðfötlun og öðrum sjúkdómum.

Samráðshópurinn leggur tvennt til. Annars vegar að stofnuð verði í áföngum tvö heimili fyrir átta húsnæðislausa einstaklinga, hvort með sérhæfðri, öflugri félags- og heilbrigðisþjónustu. Hins vegar að teymi verði stofnað sem hefur innsýn yfir stöðu húsnæðislausra á höfuðborgarsvæðinu á hverjum tíma og úrræði til að leysa úr bráðum vanda meðan unnið er að varanlegri lausn. Lagt er til að Reykjavíkurborg, félagsmálaráðuneyti og heilbrigðisráðuneyti gangi til samninga um stofnun heimilis fyrir húsnæðislausa þar sem þeim yrði boðið að búa án þess að gerð sé krafa um að þeir hætti neyslu. Að sjálfsögðu byðist heimilisfólki ráðgjöf og stuðningur til að fara í áfengis- og fíkniefnameðferð auk annarrar heildstæðrar félagslegrar ráðgjafar. Aðstaða verði fyrir átta heimilismenn. Um er að ræða tilraunaverkefni til þriggja ára og byggt á sterkum tengslum við heilbrigðisþjónustuna og lögregluna.

Heimageðhjúkrunarteymi sem rekið er á miðstöð heimahjúkrunar innan heilsugæslunnar í Reykjavík mundi veita heimilinu þjónustu. Enn fremur er lagt til að vettvangsteymi geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss taki íbúana eftir atvikum til meðferðar en sviðið býður upp á meðferð og eftirfylgd geðsjúkra sem geta ekki nýtt sér hefðbundin úrræði innan heilbrigðisþjónustunnar. Lagt er til að ríkið leggi til rekstursins fjárhæð á móti Reykjavíkurborg sem aðilar geta komið sér nánar saman um. Hlutur ríkisins verði fenginn af fyrirætluðum fjárveitingum til þjónustu við geðfatlaða. Gert er ráð fyrir að rekstur heimilisins hefjist á árinu 2006. Að einu ári liðnu og að því gefnu að reksturinn gangi vel verður stofnað annað heimili fyrir átta manns á sömu forsendum og hið fyrra.

Þá er einnig lagt til að stofnað verði teymi sem hafi yfirsýn yfir stöðu húsnæðislausra á höfuðborgarsvæðinu á hverjum tíma og bráðaúrræði. Fulltrúar í teyminu komi frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Heilsugæslunni í Reykjavík og lögreglunni í Reykjavík. Tryggt verði að teymið eigi greiðan aðgang að sjúkrastofnunum og annarri lögbundinni þjónustu og vinni í nánu samstarfi við Landspítala – háskólasjúkrahús.

Hæstv. forseti. Ég tek undir þessar tillögur samstarfsnefndarinnar og er reiðubúinn að ganga til samninga við borgaryfirvöld um að tryggja stofnun og rekstur framangreindra heimila. Þarna yrði vandi sex manna leystur. En þessar tillögur byggjast m.a. á farsælum rekstri húsnæðis fyrir heimilislausa sem staðsett er við Miklubraut í Reykjavík. Auk þess er fram undan þróunarvinna hjá Reykjavíkurborg til að bæta enn frekar stuðning og ráðgjöf við þá einstaklinga sem eru í þessum sporum, m.a. uppbygging gistiskýlis.

Nú kann einhver að spyrja hvernig eigi að leysa vanda hinna sem eftir standa. Hér er um 40–50 manns að ræða en hin nýju heimili leysa aðeins vanda 16 manns. Rétt er að benda á að hér verður tekist á við vanda þeirra sem eru með langvarandi geðröskun en sá hópur er um það bil 30–35 manns. Ég tel að stofnun teymis með þátttöku velferðarsviðsins, heilsugæslunnar og lögreglunnar í Reykjavík leiði til þess að fyrr verði brugðist við vanda fólks og úrlausn í húsnæðismálum fundin jafnvel án þess að það fari inn á hin sérstæðu heimili sem lagt er til að stofnuð verði. Þannig leiði aukið og eflt samstarf lykilstofnana á þessu sviði til þess að það takist að draga úr þeim fjölda sem býr við algert húsnæðisleysi í höfuðborginni.

Að lokum er það augljóst að samvinna milli félagsmálayfirvalda, heilbrigðisyfirvalda og lögreglu er forsenda þess að þeir sem eru á götunni vegna heilsufarslegra og félagslegra vandamála komist í varanlegt húsaskjól. Þá skiptir verulegu máli að framkvæmd tillagnanna sem ég hef greint frá, hæstv. forseti, haldist í hendur við þá þróunarvinnu sem nú fer fram hjá Reykjavíkurborg á þessu sviði.