132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Aðgerðir í málefnum heimilislausra.

91. mál
[10:46]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Í svari mínu við fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur vorið 2004 var greint frá því að líklega væru um 102 einstaklingar heimilislausir á öllu landinu. Við nánari athugun kom í ljós að hér er um mun fámennari hóp að ræða. Við vinnslu þess svars í félagsmálaráðuneytinu birtist verulega mismunandi skilningur sveitarfélaganna á því hvað fælist í heimilisleysi þrátt fyrir að fyrirspurnin væri á þá leið að átt væri við þá sem ekki ættu fastan samastað og væru samkvæmt orðanna hljóðan á götunni. Í svarinu var greint frá tölum í samræmi við upplýsingarnar sem bárust ráðuneytinu frá sveitarfélögunum. Nánari könnun hjá öllum félagsþjónustum sveitarfélaganna leiddi í ljós að mun færri byggju við þessar aðstæður en fram hafði komið í svörum þeirra við fyrstu athugun. Það er skýringin á þeim verulega mun á fjölda sem fram kom í svarinu þá og því sem hér er borið á borð í dag.

Enn fremur lagðist samráðshópurinn yfir skilgreininguna á hugtaki sem ætti við um þá sem hvergi eiga höfði sínu að halla og einsetti sér að finna skilgreiningu sem væri nothæf til að fá greinargóðar upplýsingar um þá sem nauðsynlegt er að koma til móts við og gera má ráð fyrir að þarfnist sérhæfðra úrræða. Í skýrslu samráðshópsins, sem er að finna á heimasíðu félagsmálaráðuneytisins, er miðað við tiltölulega þrönga skilgreiningu á heimilisleysi sem taki til þeirra sem verst eru settir á hverjum tíma.

Það er ástæða til þess, hæstv. forseti, að undirstrika það hér að við höfum tekið um það ákvörðun að ganga til samstarfs við Reykjavíkurborg um uppbyggingu þessara heimila sem tilraunaverkefni til að byrja með. Við sjáum svo hvernig það gengur og vonandi gengur það vel.

Hér er um samspil ríkis og sveitarfélaga að ræða. Hér er um samspil heilbrigðiskerfisins, félagsmálakerfisins og félagsþjónustu sveitarfélaganna að ræða. Ég minni á það líka, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja 1,5 milljarða í sérstaka uppbyggingu úrræða fyrir geðsjúka og að sjálfsögðu verður staðið við þau stóru orð. Það verkefni er að fara af stað núna á næstu dögum. Ég er að skipa verkefnisstjórn og til að svara spurningu hv. þm. Ástu Ragnheiðar Jóhannesdóttur þá mun verða haft náið samráð við geðfatlaða og aðstandendur þeirra um það mál.