132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Úrbætur í málefnum atvinnulausra.

94. mál
[10:48]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Hæstv. núverandi félagsmálaráðherra hefur gefið fyrirheit um að staða atvinnulausra verði bætt og hefur nefnd á hans vegum starfað til þess m.a. að endurskoða lögin um atvinnuleysistryggingar og að skoða vinnumarkaðsaðgerðir, einkum fyrir þá sem eru atvinnulausir til langs tíma. Atvinnulausir, einkum þeir sem eru atvinnulausir til langs tíma, lifa margir við mjög bág kjör og ekki verður komist hjá því að bæta kjör þeirra verulega. Þetta fólk er oft í sárri neyð, atvinnuleysisbætur duga hvergi og það þarf iðulega að leita á náðir hjálparsamtaka.

Kjör atvinnulausra voru skert verulega þegar ríkisstjórnin rauf tengsl atvinnuleysisbóta og launa á árinu 1996 og hefur fyrrverandi félagsmálaráðherra svarað því til að um sé að ræða 15 þús. kr. skerðingu á mánuði, eða 180 þús. kr. á ári, en fyrir tilstilli verkalýðshreyfingarinnar hafa kjör atvinnulausra verið bætt lítillega frá því sem var þegar ríkisstjórnin tók við og enn virðist það vera svo að verkalýðshreyfingin er í fararbroddi fyrir því að bæta enn frekar kjör þessara hópa.

Við í Samfylkingunni höfum talað mjög fyrir bættum kjörum atvinnulausra og m.a. flutt frumvarp um að lögfest verði ákvæði um sérstaka desemberuppbót til þeirra einstaklinga sem eiga rétt á atvinnuleysisbótum. Elli- og örorkulífeyrisþegar eiga rétt á 30% uppbót í desember á fjárhæðum tekjutryggingar og tekjutryggingarauka og hið sama gildir um þá sem starfa á almennum vinnumarkaði auk þess sem þeir fá sérstakar orlofsuppbætur. Því er það með öllu óskiljanlegt að atvinnulausir, þeir sem verst eru staddir í þjóðfélaginu, fái ekki þessar uppbætur á sín kjör. Ég man ekki betur en þessar jólauppbætur hafi verið til staðar áður en þessi ríkisstjórn tók við á árinu 1995.

Um það er spurt hvort fyrirhugað sé að atvinnulausir fái desember- og orlofsuppbót eins og aðrir á vinnumarkaði sem og lífeyrisþegar. Hér er ekki um háar fjárhæðir að ræða, sennilega 150–175 millj. kr., og auðvitað sanngirnismál að atvinnulausir séu ekki á einhverjum sérbás og fái ekki orlofs- eða desemberuppbætur líkt og aðrir.

Þessi fyrirspurn var lögð fram í byrjun þings en nú hefur komið fram að verkalýðshreyfingin hefur náð fram í tengslum við kjarasamninga verulegum breytingum á atvinnuleysisbótum, m.a. á tekjutengingu þeirra, sem ber að fagna. Ágætt væri að fá fram hjá hæstv. ráðherra hvernig útfærslan er hugsuð, hvenær breytingarnar taka gildi og hvort áhorf séu uppi um lögfestingu þeirra nú fyrir jólaleyfi eða a.m.k. þeim hluta sem lýtur að hækkun grunnbóta. Einnig væri áhugavert að heyra, eins og ég hef áður nefnt, frá ráðherranum hvort greiðslur til foreldra langveikra barna, sem áformað er að flytja frumvarp um, taki mið af þessum breytingum. Ég hef áður spurt um vinnumarkaðsaðgerðir og spyr enn og aftur hvað sé á döfinni varðandi vinnumarkaðsaðgerðir fyrir þá sem eru atvinnulausir til langs tíma, hvort fyrirhugað sé að bæta stöðu þeirra. Ég veit að hæstv. ráðherra þekkir vel stöðu þessa hóps og munar lítið um að svara hér.