132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Úrbætur í málefnum atvinnulausra.

94. mál
[10:52]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur beint til mín fyrirspurn um það hvort vænta megi úrbóta í málefnum atvinnulausra á yfirstandandi þingi, m.a. hvað varðar hækkun bóta á tekjutengingu. Enn fremur hvort fyrirhugað sé að atvinnulausir fái desember- og orlofsuppbót eins og aðilar á vinnumarkaði sem og lífeyrisþegar.

Því er fyrst til að svara að um miðjan apríl 2004 skipaði ég nefnd til að endurskoða málefni er varða atvinnuleysistryggingar og vinnumarkaðsaðgerðir. Þar undir féllu lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 12/1997, lög um Tryggingasjóð sjálfstætt starfandi einstaklinga, nr. 46/1997, og lög um vinnumarkaðsaðgerðir, nr. 13/1997.

Markmiðið með endurskoðuninni var skilgreint þannig að stefna ætti að því að bæta stöðu og öryggi fólks sem er atvinnulaust, fjölga úrræðum vinnumiðlunar til að gera atvinnuleitendum kleift að bæta starfshæfni og skipta um starfsvettvang og auka skilvirkni almennt. Nefndinni var einkum falið að fjalla um eftirfarandi þætti og koma eftir atvikum með tillögur til breytinga eða úrbóta.

Í fyrsta lagi er fjallað um stjórnsýslu og ábyrgð í málaflokknum, þar með talið að leita leiða til að samræma betur yfirstjórn þessara málaflokka og einfalda ákvörðunartöku, fækka stjórnum, ráðum og nefndum og tryggja betri yfirsýn yfir málaflokkinn.

Í öðru lagi að endurskoða rétt til bóta, bótatíma og bótafjárhæðir, m.a. með tilliti til þróunar annarrar tryggingaverndar hér á landi, breytinga á samfélagsháttum og viðhorfs og þróunar á hinum Norðurlöndunum og á Evrópska efnahagssvæðinu.

Í þriðja lagi að fara yfir þau úrræði sem eru á færi Vinnumálastofnunar og vinnumiðlunar til að aðstoða atvinnuleitendur og skipulag þeirra þar með talið aðferðir og árangur og styrki og stuðning við starfstengda menntun.

Í nefndinni sátu fulltrúar Alþýðusambands Íslands, samtaka atvinnulífsins, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja auk fulltrúa stjórnvalda. Nefndin hefur unnið mjög vel að því verkefni sem henni var falið. Hún hélt fjölda funda, átti samráð við ýmsa aðila sem láta sig varða málefni vinnumarkaðarins og stöðu atvinnulausra og kynnti sér skipulag atvinnuleysistrygginga og þjónustu við atvinnuleitendur í næstu nágrannalöndum okkar. Afrakstur nefndarstarfsins er ítarleg skýrsla sem ég fékk í hendur fyrr í þessum mánuði. Í henni eru lagðar til grundvallarbreytingar á skipan atvinnuleysistrygginga hér á landi auk fjölmargra tillagna við umbætur og starfsemi Vinnumálastofnunar að því er varðar þjónustu við atvinnuleitendur.

Tími minn leyfir ekki að ég fari yfir tillögur nefndarinnar í smáatriðum, hæstv. forseti. Ég get einungis stiklað á stærstu breytingunum.

Mikilvægasta breytingin er að mínu mati sú grundvallarbreyting sem felst í tekjutengingu atvinnuleysisbóta. Með henni er dregið verulega úr því fjárhagslega áfalli sem einstaklingar og fjölskyldur verða fyrir við atvinnumissi. Einnig er lagt til að bætur atvinnuleysistrygginga verði hækkaðar. Í tillögunum er einnig að finna tillögur um einföldun stjórnsýslu. Þar er einnig lögð áhersla á að breyta þurfi viðhorfi til vinnu og fjölga úrræðum vinnumiðlunar til að gera fólki kleift að verða virkir þátttakendur í atvinnulífinu þrátt fyrir skort á vinnufærni eða rekstrarerfiðleika einstakra fyrirtækja eða starfsgreina. Þetta ber að gera með eflingu starfsmenntunar og fjölgunar tækifæra til að njóta endurhæfingar.

Frá því að ég fékk skýrslu nefndarinnar í hendur, hæstv. forseti, hafa hlutir gerst hratt eins og hv. þingmaður rakti. Síðasta þriðjudag náðist mjög þýðingarmikið samkomulag á milli heildarsamtaka atvinnurekenda, launafólks og ríkisins um að hrinda í framkvæmd tillögum endurskoðunarnefndarinnar. Samkomulag er um að tekjutengja atvinnuleysisbætur. Tekjutengingin verður miðuð við 70% af heildartekjum samkvæmt launaseðlum síðustu sex mánuði að undanskildum síðasta mánuði fyrir atvinnumissi. Þak er sett á hámarksbætur sem geta ekki orðið hærri en 180 þús. kr. á mánuði. Rétturinn til tekjutengdra bóta verður að hámarki þrír mánuðir á þriggja ára tímabili og hefst þegar sá atvinnulausi hefur verið í tíu virka daga á grunnbótum. Jafnframt verða lágmarksbætur hækkaðar úr rúmlega 91 þús. kr. í 96 þús. kr.

Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þann 15. nóvember sl. kemur m.a. fram að forsætisráðherra mun skipa nefnd sem í eiga sæti fulltrúar stjórnvalda, fulltrúar aðila á vinnumarkaði og fulltrúar lífeyrissjóða. Meðal verkefna þeirrar nefndar verður að fjalla um leiðir til að efla starfsendurhæfingu í því skyni að hjálpa einstaklingum sem ekki hafa fest rætur á vinnumarkaði eða hafa þurft að hverfa af honum vegna atvinnuleysis eða örorku. Jafnframt er kerfið gert einfaldara og skilvirkara og tryggð betri yfirsýn yfir þau úrræði sem eru í boði hverju sinni.

Í skýrslunni sem hér er gerð að umtalsefni er ekki fjallað um desember- eða orlofsuppbót á atvinnuleysisbætur. Ég get hins vegar, hæstv. forseti, upplýst það hér að ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að það sama ætti að gilda gagnvart atvinnulausum og þeim sem hafa atvinnu þannig að þeir munu njóta sérstakrar eingreiðslu til samræmis við það sem aðilar vinnumarkaðarins sömdu um sín í milli í vikunni. Nákvæm útfærsla á þessu liggur ekki fyrir en mun gera það næstu daga.

Hæstv. forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka öllu því ágæta fólki sem hefur undirbúið þær breytingar á atvinnuleysiskerfinu sem nú eru að verða að veruleika. Ég leyfi mér jafnframt að taka undir með forseta Alþýðusambands Íslands þegar hann segir í viðtölum við fjölmiðla að þetta muni verða mestu breytingar á atvinnuleysisbótalöggjöfinni frá upphafi. Það eru orð að sönnu, hæstv. forseti, og ástæða til að fagna þeim tímamótum alveg sérstaklega.