132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Lenging fæðingarorlofs.

134. mál
[11:08]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. fyrirspyrjanda Katrínu Júlíusdóttur kærlega fyrir þessa fyrirspurn sem að mínu mati snertir afskaplega mikilvægt mál og málið snertir fjölskyldur þessa lands og ekki síst atvinnulífið hér á landi. Við stöndum frammi fyrir þeim veruleika að flestir foreldrar lenda í ákveðnum erfiðleikum þegar fæðingarorlofinu sleppir og þangað til viðkomandi barn kemst í leikskóla. Þetta er tímabil sem getur verið allt að níu mánuðum ef ekki lengra og þetta tímabil þurfa foreldrar að brúa með einhverjum hætti. Til að brúa það tímabil tel ég að við ættum að hafa það að markmiði að lengja fæðingarorlofið og það er miður að ráðherra skuli ekki vilja beita sér fyrir því

En til er annað úrræði sem við ættum að efla að mínu mati og það er þjónusta dagforeldra. Þar sem við erum fá hérna í salnum langar mig að vera á persónulegum nótum. Við konan mín erum búin að hringja í 30 dagforeldra en fáum hvergi inni fyrir barnið okkar eftir næstu áramót. Það er því ljóst að ófremdarástand ríkir í þjónustu dagforeldra. Þetta hefur auðvitað áhrif á aðkomu fólks á vinnumarkaðinn. Við þurfum, bæði ríki og sveitarfélög, (Forseti hringir.) að beita okkur fyrir því að leysa þennan vanda sem foreldrar eru að lenda í og ég finn á eigin skinni þessa dagana.