132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Lenging fæðingarorlofs.

134. mál
[11:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka þær góðu umræður sem hér hafa orðið en ég verð að lýsa verulegum vonbrigðum með svör hæstv. félagsmálaráðherra. Ég hefði talið að miðað við þau góðu lög sem sett voru árið 2000 væri eðlilegt að stíga næst það skref að lengja fæðingarorlofið þannig að við stæðum þá a.m.k. á pari við nágrannaríki okkar á Norðurlöndum hvað lengd fæðingarorlofs varðar.

Réttilega hefur verið komið inn á það að þetta mál snýst annars vegar um samveru og samvistir barna og foreldra og rétt barna til samvista við foreldra sína og hins vegar um aðkomu kynjanna að vinnumarkaði eftir að fæðingarorlofi lýkur. Þetta eru að mínu mati, virðulegi forseti, verkefni sem við verðum að ráðast í og ég tel mjög eðlilegt að við ræðum þetta einmitt núna fimm árum eftir að lögin voru sett, þessi nýju, fínu lög. Það gagnast ekki að setja góð lög með góðum markmiðum, eins og að auka samvistir foreldra og barna og bæta aðstöðu og aðkomu kvenna að vinnumarkaði, og senda fólk síðan út í óvissuna að níu mánuðum liðnum. Þá er ég ekki að tala um foreldra eingöngu heldur börn líka.

Það er ekki hægt að benda á sveitarstjórnirnar í þessum efnum, þetta er verkefni okkar allra. Ég tel að við eigum að fara þá leið sem farin hefur verið á Norðurlöndunum. Við eigum að lengja fæðingarorlofið, það er eðlilegt að það verði næsta skref.

Þess vegna lýsi ég enn og aftur vonbrigðum mínum með þessi svör vegna þess að ég hefði haldið að hæstv. félagsmálaráðherra væri á sömu skoðun og við í Samfylkingunni hvað þetta varðar. Við verðum að renna styrkum stoðum undir þá góðu lagasetningu sem við erum með núna, ekki veikja hana.