132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

254. mál
[11:31]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra talaði um að sum ráðuneyti hefðu farið eftir þessum jafnréttisráðstöfunum og ég óska eftir því að hæstv. ráðherra geri nánari grein fyrir hvað hann á við með því.

Það vakti einnig athygli mína að hæstv. ráðherra virðist vera á þeirri skoðun að það sé ríkjandi vanmáttur frá hans hendi eða hans embætti til að takast á við þessi mál því hann hefur lýst því yfir að þessi málefni ættu að heyra undir forsætisráðuneytið.

Hvað er það sem gerir ráðuneyti hans svo vanmáttugt til að taka á þessum málum? Nú veit ég ekki hvort menn eru fljótir til að færa málaflokk eins og þennan á milli ráðuneyta en það gæti samt tekið einhvern tíma að ná pólitískri sátt eða niðurstöðu um það, þannig að ég sé ástæðu til þess að hæstv. ráðherra geri betri grein fyrir því hvað það er sem hann á við að glíma sem er svona erfitt að hann telur að verkefnin verði að fara til forsætisráðuneytisins.