132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Áætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára.

254. mál
[11:32]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Sf):

Frú forseti. Vegna ummæla hæstv. ráðherra áðan um vinnuhóp til að skoða ástæður launamunar þá vil ég rétt vekja athygli á því að þessi tillaga kemur frá SFR, stéttarfélagi í almannaþjónustu, og það er athyglisvert að frumkvæðið þarf yfirleitt að koma þaðan, það kemur ekki frá ríkisvaldinu sjálfu. En í bókun með kjarasamningi segir, með leyfi forseta:

„Við úttekt sem framkvæmd var af samningsaðilum, þar sem borin voru saman meðallaun karla og kvenna innan SFR í október 2004 og störfuðu hjá sömu stofnun í október 2003 kom í ljós nokkur launamunur. Eru aðilar sammála um að leita þurfi frekari skýringa á því hvað valdi þessum launamun.

Skipa skal vinnuhóp sem skoða skal nánar ástæður þessa launamunar. […]

Vinnuhópurinn skal ljúka störfum fyrir 1. maí 2006 og leggja fyrir samningsaðila tillögur til úrbóta.“

Ég vek athygli á því, forseti, að enn og aftur eru það aðilar á vinnumarkaðnum sem þurfa að hafa frumkvæði að því að jafna launamun kynjanna.