132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna.

255. mál
[11:46]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Í þeirri framkvæmdaáætlun sem samþykkt var fyrir einu og hálfu ári var það raunverulega lykillinn að því hve breið samstaða náðist milli stjórnar og stjórnarandstöðu um þá áætlun að fallist var á af hálfu stjórnarliða að ráðist yrði í framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna. Ég vil þess vegna og sé ástæðu til að fagna svari ráðherrans. Ég heyri af orðum hans að hann er með undirbúninginn í góðum gír, ef hægt er að orða það svo, hvað varðar framkvæmdaáætlunina og farið verði á fullu í þetta á næsta ári og undirbúningur er í gangi.

Hæstv. ráðherra nefnir að framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna verði að fullu komin til framkvæmda við lok framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum sem er þá á árinu 2008 ef ég skil það rétt. Það er fagnaðarefni að ráðist skuli svona skipulega í gerð framkvæmdaáætlunar um launajafnrétti kynjanna. Ég geri ráð fyrir að hæstv. ráðherra fari líka í viðræður við aðila vinnumarkaðarins eins og nefnt var í þessari áætlun þannig að framkvæmdaáætlunin geti tekið bæði til opinberra starfsmanna og þá líka til almenna vinnumarkaðarins sem er nauðsynlegt líka. Ég held að þetta hafi einmitt vantað, þ.e. að skipulega sé ráðist í það verkefni að ná fram launajafnrétti kynjanna sem ég hef trú á að hægt sé að gera með umræddri framkvæmdaáætlun ef fullur hugur fylgir máli, sem ég ætla ekkert að efast um miðað við það sem ráðherrann segir.

Því fagna ég þessu mjög en spyr ráðherrann í lokin hvort hann sé sammála því sem margir hafa verið að tala fyrir og hér í þessum sal líka, að rétt sé að afnema launaleyndina sem er mikilvægt atriði til að ná fram launajafnrétti kynjanna.