132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Framkvæmdaáætlun um launajafnrétti kynjanna.

255. mál
[11:49]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil fyrst segja að að sjálfsögðu verður haft ríkulegt samráð við aðila vinnumarkaðarins við undirbúning þeirrar áætlunar sem við erum að ræða, annað kemur ekki til greina.

Það er hárrétt hjá hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að lykillinn að breiðri samstöðu í þinginu við afgreiðslu framkvæmdaáætlunar í jafnréttismálum var einmitt það að samstaða náðist um þessa framkvæmdaáætlun, sérstaklega í launajafnréttinu sem var felld inn í hina.

Ég vil, hæstv. forseti, eins og kom fram í fyrri ræðu minni undirbyggja þá vinnu eins vel og nokkur kostur er, enda deilum við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir einlægum áhuga á því að kynin hafi sömu laun fyrir sömu vinnu og til þess er þessi leikur, hæstv. forseti. Mér finnst allt koma til greina í þeim efnum og ég tel að við eigum ekki að útiloka neitt í þeirri vinnu sem fram undan er. Þar er launaleyndin eitt þeirra atriða sem ég tel fulla ástæðu til að menn fari yfir með aðilum vinnumarkaðarins. Við verðum að beita þeim ráðum sem við trúum að muni duga til að útrýma þessum óþolandi launamun.