132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Jafnréttisfræðsla fyrir ráðherra og stjórnendur opinberra stofnana.

256. mál
[11:57]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að koma með þessa góðu fyrirspurn hingað inn um jafnréttisfræðslu fyrir ráðherra og stjórnendur opinberra stofnana. Ég tel satt best að segja að ekki veiti af slíkri fræðslu í mörgum tilvikum vegna þess að nú er ekki nema ár síðan t.d. fjármálaráðherra skipaði nefnd sem var einungis skipuð körlum. Á þessu ári hafa orðið á vegi manns starfshópar og vinnuhópar á vegum ráðuneytanna og opinberra stofnana sem eru einungis skipaðir körlum. Þetta er auðvitað eitthvað sem við verðum að taka á og hið opinbera, ráðuneytin og opinberar stofnanir, verður að ganga á undan í þessum efnum og það þýðir ekki bara að samþykkja jafnréttisáætlanir sem hafa fín og fögur markmið ef þeim er ekki fylgt eftir. Eftirfylgni þeirra hefur verið ábótavant hjá hinu opinbera og í ráðuneytunum. Þess vegna tel ég að slík fræðsla sem hér er nefnd af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sé algert grundvallaratriði.