132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Barnabætur.

197. mál
[12:06]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Frú forseti. Fyrir landsfund sjálfstæðismanna, sem haldinn var í október síðastliðnum, sá ég frétt um að fyrir fundinum lægi ályktun um barnabætur þess efnis að þær yrðu ótekjutengdar. Ég hef hug á að heyra afstöðu nýs fjármálaráðherra til þeirra hugmynda sjálfstæðismanna, ekki síst í ljósi þess að barnabæturnar hafa verið skertar verulega í tíð núverandi ríkisstjórnar. Það er mikilvægt að allir séu meðvitaðir um að þótt barnabæturnar verði hækkaðar um 2,4 milljarða kr. á næstu tveimur árum þá hafa barnabæturnar samt lækkað verulega í raungildi frá því að núverandi stjórnarflokkar tóku við taumunum fyrir tíu árum.

Allt og sumt sem ríkisstjórnin ætlar að gera á árunum 2006 og 2007 er að skila einhverjum hluta af því sem barnafjölskyldur hafa í besta falli verið hlunnfarnar um á undanförnum árum. Ef við lítum t.d. á tekjutengingu barnabóta þá var hún um 44% á árinu 1995, þ.e. þegar stjórnarflokkarnir taka við, en er orðin 81% á árinu 2004. Hlutur tekjutengdra barnabóta af heildargreiðslu, sem allir foreldrar barna fá óháð tekjum, var 56% á árinu 1995 en var komin niður í 19% á síðasta ári. Staðreyndin er sú að barnabætur hafa hreinlega breyst í láglaunabætur. Það er ekki lengur hægt að kalla þetta barnabætur heldur eru þetta láglaunabætur, sem endurspeglast t.d. í því að þegar ég var að skoða þetta á árinu 2003 fengu alls 11,3% einstæðra foreldra ótekjutengdar barnabætur en aðeins 3% hjóna. Áður en þessi ríkisstjórn tók við voru greiddar ótekjutengdar barnabætur til allra barna að 16 ára aldri en nú eru þær einungis greiddar til barna að 7 ára aldri.

Miðað við forsögu stjórnarflokkanna í barnabótum velti ég fyrir mér hvort orðið hefði einhver stefnubreyting hjá sjálfstæðismönnum miðað við ályktunina sem lögð var fyrir landsfundinn, um að barnabætur verði ótekjutengdar. Það hefur ekkert heyrst opinberlega af því hvaða umfjöllun eða niðurstaða varð um þá ályktun. En þar sem nú er nýr fjármálaráðherra í stólnum hafði ég hug á að heyra hug hans til þessa máls og hvort hann teldi ekki eðlilegt að beita sér í átt að því sem einhverjir landsfundarfulltrúa, ég veit ekki hve margir, lögðu til að því er þessa ályktun varðar. Ég spyr því ráðherrann:

1. Hver er afstaða ráðherra til þess að greiðslur barnabóta verði ótekjutengdar og hver yrði kostnaðurinn fyrir ríkissjóð?

2. Hve mörg lönd innan OECD greiða ótekjutengdar barnabætur og hve mörg tekjutengdar?

3. Hver er afstaða ráðherra til þess að greiða barnabætur til 18 ára aldurs og hvaða útgjöld hefði það í för með sér fyrir ríkissjóð?