132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Barnabætur.

197. mál
[12:14]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég veit ekki hvort það er guðsþakkarvert að ríkisstjórnin ætli að skila til baka 2,5 milljörðum kr. af þeim 9,5 milljörðum kr. sem hún hefur kroppað af barnafólki síðan þessi ríkisstjórn hóf störf. Hafi hins vegar einhver efast um af hverju hæstv. ráðherra var lyft til þeirrar fremdar að fara með fjármál þjóðarinnar þá skildu menn það af þessari ræðu. Honum tókst að reikna út að með því að hækka barnabætur um 2,4 milljarða kr. mundu ráðstöfunartekjur barnafólks, eins og hann sagði það, aukast nánast jafnmikið og ef þær yrðu hækkaðar um 10 milljarða kr., þ.e. ef önnur leiðin yrði farin.

Niðurstaðan í máli ráðherrans er þessi: Hann gefur ekki neitt fyrir yfirlýsingu landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Hann hefur fordæmin fyrir sér. Ég minnist þess að forvígismaður breska Íhaldsflokksins sagði einu sinni að það væri álíka gáfulegt að taka mark á hundinum sínum og flokkssamþykktum landsfunda íhaldsmanna í Bretlandi. Mér þótti það heldur hrokafullt en mér sýnist hæstv. ráðherra renna í sama farið hér heima.