132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Barnabætur.

197. mál
[12:16]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg ljóst af svörum ráðherra að það verður engin stefnubreyting að því er varðar meðferðina á barnabótum þó að nýr fjármálaráðherra sé kominn í stólinn og það er alveg ljóst að hæstv. ráðherra ætlar að gefa þeirri tillögu sem var lögð fyrir þingið, þó að hún væri ekki samþykkt, langt nef og og finnur henni allt til foráttu. Ég skil ekki reikningskúnstir ráðherrans þegar hann segir að með því að bæta 7 milljörðum inn í barnabótakerfið þá muni það draga úr ráðstöfunartekjum. Hann er væntanlega að tala um þá örfáu sem fá ótekjutengdar barnabætur en það voru, eins og ég nefndi áðan, 3% hjóna þegar þetta var skoðað á árinu 2003 vegna þess að þetta eru auðvitað ekkert annað en láglaunabætur.

Þegar ég skoðaði þetta síðast, þar sem mér fannst ráðherrann fara út og suður þegar hann gerði þinginu grein fyrir því hve mörg lönd innan OECD væru með ótekjutengdar barnabætur, voru örfá lönd, og Ísland þar á meðal, með tekjutengdar barnabætur en mjög mörg lönd voru með þær ótekjutengdar og er þá horft til þess að um sé að ræða rétt barnsins sem ekki eigi að skerða.

Ráðherrann var líka með útúrsnúning þegar ég nefndi hér ákveðinn aldur og hann segir að það þýði uppstokkun á barnabótakerfinu ef farið verði að greiða barnabætur til 18 ára aldurs. Ef það flækir svona skattkerfið hvað þá með það að greiða ótekjutengdar barnabætur til 16 ára aldurs eins og var 1995 áður en stjórnarflokkarnir tóku við taumunum? Ég bið ráðherrann að svara því. Nú eru bæturnar einungis greiddar til 7 ára aldurs og það er auðvitað skömm að því hvernig þessir flokkar hafa farið með barnabæturnar og dregið úr þeim að raungildi ef miðað er við 1995. Hvernig sem málið er skoðað þá er ekki hægt að horfa á hlutina í öðru ljósi.