132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Barnabætur.

197. mál
[12:19]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég hafna því algjörlega að ég hafi verið með einhverja útúrsnúninga, það er fjarri mér. Hins vegar er ég svolítið undrandi á því að hv. þingmaður hafi vænst stefnubreytingar þótt það kæmi nýr fjármálaráðherra. Hér situr sama ríkisstjórnin og hún vinnur eftir sama stjórnarsáttmála og í þeim sáttmála eru mjög skýrar yfirlýsingar um það hvað ríkisstjórnin hyggst gera í þessum efnum. Hún hyggst draga úr tekjutengingunni og auka þá fjármuni sem fara til barnabóta. Það má segja að hvað barnabætur varðar í heild sinni, ef við miðum við verðlag ársins 2003 og þá miðað við þær tölur sem við erum að vinna með fyrir næsta ár — sem eru auðvitað ekki alveg nákvæmlega sambærilegar en í meginatriðum — erum við að tala um sams konar upphæðir sem eru þá u.þ.b. 6 milljarðar kr. Mig minnir að hv. þingmaður hafi setið í þeirri ríkisstjórn sem sat á árunum 1991–1995, hún hafi alla vega verið í ríkisstjórninni árið 1993 þegar barnabætur voru innan við 6 milljarðar miðað við verðlag ársins 2003. (Gripið fram í.) Ég bið hv. þingmann að grípa ekki fram í því að það er stuttur tími sem ég hef.

Hvað það varðar að fara eftir samþykktum landsfundarins þá held ég að ég sé frekar þekktur að því að fara eftir þeim heldur en hitt og hvað varðar ummæli íhaldsmanns í Bretlandi þá er hv. þingmaður greinilega betur uppfræddur um það hvernig þeir vinna heldur en ég.