132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Vinnutími á blóðskilunardeild LSH.

[15:07]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson) (F):

Virðulegi forseti. Á blóðskilunardeild Landspítala – háskólasjúkrahúss fer fram mikilvæg starfsemi, mér er það alveg ljóst, en svar mitt er einfalt í því sambandi: Ég ætlast til að forustumenn spítalans og starfsfólk hans setji niður þessa deilu og tryggi þjónustuna áfram. Þetta er skipulagsmál á spítalanum og afgreiðsla spítalans í fjárlögum gefur ekki ástæðu til að tala um sparnaðaraðgerðir í þessu skyni. Ég ætlast til að málið verði leyst innan spítalans og trúi því að forustumenn hans og starfsfólk það sem hér á í hlut leysi það og tryggi þessa lífsnauðsynlegu þjónustu áfram því að þarna er lífsnauðsynleg þjónusta á ferðinni. Afgreiðsla spítalans bæði í fjárlögum og fjáraukalögum gefur ekki tilefni til að talað sé um niðurskurð í þessu efni.