132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Byggðastofnun.

[15:11]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Síðasta miðvikudag svaraði hæstv. iðnaðarráðherra fyrirspurn minni varðandi úttekt á Byggðastofnun. Í svari ráðherra kom fram að niðurstöður úttektar á stofnuninni væri að finna í iðnaðarráðuneytinu og aðgengilegar þingmönnum þar. Starfsmenn Alþingis reyndu á fimmtudag og föstudag að nálgast úttektina fyrir mig en án árangurs. Eftir hádegi á föstudag talaði ég við ritara ráðherra og tjáði henni að ég ætlaði að nota umbeðið plagg yfir helgina. Hún bað mig að hafa ekki áhyggjur, gögnin yrðu send til mín á netinu. Það sem ég fékk var hins vegar skýrslan Konur og stoðkerfi atvinnulífsins sem dreift var á prenti til allra þingmanna fyrir nokkrum vikum. Virðulegi forseti. Ég varð mjög hissa og hef þó séð ýmislegt.

Ástæða þess að ég er að krefja hæstv. ráðherra svara um Byggðastofnun birtist í morgunfréttum en þar var sagt frá því að Byggðastofnun hefði hætt útlánum vegna þess að stofnunin væri komin undir 8% eiginfjárhlutfall sem er lágmark Fjármálaeftirlitsins. Mér er kunnugt um að iðnaðarráðherra hefur ekki farið fram á auknar fjárveitingar til Byggðastofnunar við gerð fjárlaga fyrir árið 2006 en vinna við fjárlög er nú á lokastigi. Það er því ekki að sjá að hæstv. ráðherra ætli sér að tryggja starfsemi þessarar mikilvægu stofnunar þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. Ég spyr því hæstv. ráðherra:

Hvers vegna stóð ráðherra ekki við loforð sín sem hún gaf hér úr ræðustóli á miðvikudaginn var? Er þessi skýrsla eitthvert leyndarmál og á að kæfa Byggðastofnun hægt og rólega, eða hvað ætlast hæstv. ráðherra eiginlega fyrir með stofnunina?