132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Byggðastofnun.

[15:13]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Mál þetta var til hér umfjöllunar sl. miðvikudag eins og fram kom hjá hv. þingmanni og það er í raun ekkert nýtt um málið að segja síðan þá. En að gera það að umtalsefni á hv. Alþingi þó að ritara mínum verði á mistök og sendi ekki rétta skýrslu til hv. þingmanns þegar ég er í útlöndum finnst mér dálítið langt gengið. Þar að auki sendi ég hv. þingmanni rétta skýrslu í morgun og gaf henni skýringar á því hvers vegna þessi mistök áttu sér stað.

Hins vegar get ég sagt að við erum að fjalla um málefni Byggðastofnunar í ráðuneytinu og það er rétt að eigið fé er komið niður fyrir lögleg mörk og við því þarf að bregðast. Einnig þarf að fara yfir það hvernig starfsemi Byggðastofnunar á að verða til framtíðar vegna þess að það umhverfi sem hún starfar í er mjög breytt hvað varðar lánastarfsemina. Samkvæmt lögum á lánastarfsemi stofnunarinnar að standa undir sér og vera sjálfbær en miðað við hina breyttu stöðu er ekki útséð um hvort það getur orðið til framtíðar. Því þarf að skoða þetta mál mjög gaumgæfilega. Nefnd hefur verið að störfum sem ég skipaði í framhaldi af því að skýrslan var unnin, skýrslan sem greinir stöðu mála, og það er sú margumtalaða skýrsla sem hv. þingmaður hefur áhuga á að lesa og ég skil það mjög vel.

Síðan þurfum við náttúrlega að fara yfir það hvort ástæða er til að samræma betur það atvinnuþróunarstarf sem á sér stað í landinu. Það er t.d. mjög klofið undir ráðuneyti mínu og spurning hvort við verðum ekki að reyna að samhæfa starfið þannig að það skili þegnunum meiri árangri og þeir fái betri þjónustu en verið hefur fram til þessa. Ég held að það geti jafnvel verið hægt að gera það. Ég hef áhuga á því en gaman væri að heyra hvað hv. þingmaður er fyrst og fremst að hugsa um í sambandi við þessa stofnun.