132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Hátækniiðnaður.

[15:28]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á þetta mikilvæga mál og ég er alveg sammála honum með það að hátækniiðnaðurinn er gríðarlega mikilvægur og hann glímir við talsverða erfiðleika, það er alveg hárrétt, og mér fannst hv. þingmaður óvanalega hógvær í orðum sínum að taka ekki meira upp í sig en þetta því að ég er alveg sammála honum með það að hann glímir við talsverða erfiðleika.

Ég er hins vegar ósammála honum með það að hátt gengi krónunnar sé fyrst og fremst út af álversframkvæmdum. Það er bara lítill hluti af þeim áhrifum sem valda sterku gengi krónunnar sem kemur út af stóriðjunni en það er nú of stuttur tími til að fara út í það.

Það vill svo til að ég mun eiga fund með Samtökum iðnaðarins nú í þessari viku um stöðu hátækniiðnaðarins og ég tel að það sé mikilvægt að við förum yfir það í fullri alvöru hvort ríkisstjórnin geti á einhvern hátt komið þannig að málum að þessi mikilvæga iðngrein eigi bjartari framtíð hér á Íslandi en hún á í dag vegna mikilvægis þessara starfa og mun ég beita mér í því eins og ég hef bolmagn til.