132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Dýravernd.

312. mál
[15:46]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það var ánægjulegt að heyra að hæstv. ráðherra er ekki kunnugt um að slíkar prófanir á lifandi dýrum hafi átt sér stað hérlendis, enda er það að mörgu leyti býsna viðurstyggilegur iðnaður þegar verið er að nota lifandi dýr til að þróa áhrif snyrtivara. Í mörgum tilfellum hefur það ábyggilega mjög alvarlegar og harkalegar afleiðingar á skepnuna. Slíkt fortakslaust bann hljómar því ákaflega vel en um leið hlýtur það að vekja upp spurningar um hvað komi í staðinn. Það eru ástæður fyrir því að snyrtivöruframleiðendur hafa notað lifandi dýr til að prófa áhrif snyrtivaranna. Það er til að tryggja að þau hafi ekki skaðleg áhrif á notandann, á mannskepnuna þegar hún byrjar að smyrja á sig smyrslunum eða sprauta á sig ilmvatninu. Um leið og það hljómar vel og maður hlýtur að styðja slíkt fortakslaust bann vekur það samt upp spurningar hvað komi í staðinn til að tryggja öryggi snyrtivara á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja um áhrif vörunnar, skaðsöm eða hættuleg áhrif. Flestar eru snyrtivörur skaðlegar ef þær eru notaðar í óhófi eða fyrir fólk með ýmsa húðsjúkdóma o.s.frv. Því er mjög mikilvægt að fram fari mjög ígrundað og vandað próf á áhrifum snyrtivara á mannskepnuna.

Ég spyr hæstv. ráðherra um leið og ég fagna því að slíkar prófanir hafi ekki átt sér stað á Íslandi á lifandi dýrum: Hvað kemur í staðinn og hvernig er öryggi snyrtivaranna tryggt þegar má segja að mannskepnan sé fyrsta lifandi tilraunadýrið sem er notað til að prófa áhrif snyrtivara á og hvaða afleiðingar notkun þeirra getur haft eftir að fortakslaust bann hefur verið lagt við notkun lifandi dýra, sem er gott. Það er ekki verið að kvelja blessaðar skepnurnar í neinum tilfellum en um leið hljótum við að kalla eftir því að hámarksöryggis verði gætt þannig að snyrtivörurnar valdi ekki mannskepnunni skaða.