132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Dýravernd.

312. mál
[16:06]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Hér er mjög afmarkað mál til umræðu þar sem um er að ræða litla breytingu á dýraverndarlögunum sem snýr að snyrtivörum. Við erum ekki að ræða endurskoðun á dýraverndarlögum, það er algerlega ljóst. En ég skil það hins vegar ágætlega að þingmen noti tækifærið til að reifa áhyggjur sínar af þeim málum og mér finnst það eðlilegt. En hins vegar, eins og ég nefndi áðan í stuttu andsvari, þá stendur ekki yfir heildarendurskoðun á dýraverndarlögum í ráðuneytinu. Við höfum hins vegar verið með til gagngerrar skoðunar að skýra verkaskiptinguna á milli umhverfisráðuneytis og landbúnaðarráðuneytis þannig að einhver mál falli ekki milli stafs og hurðar. Ég vænti þess að það muni skýrast fljótlega.