132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Stuðningur við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

313. mál
[16:15]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Ég tel að 2. gr. frumvarpsins sem hér um ræðir sé mjög jákvæð, þ.e. að veita eigi fé til rannsókna á viðtökum á fráveitu. Ég tel að á það hafi skort, sérstaklega í minni sveitarfélögunum vegna þess að þau eru oft óviss um hvaða kröfur er verið að uppfylla og hvernig viðtakinn stendur. Þetta er því mjög nauðsynlegt.

Af því að mér finnst þetta fremur lág upphæð vil ég að ráðherrann svari því hvers vegna menn duttu niður á 10 milljónirnar. Hvað varð þess valdandi? Ég er á því að rannsóknir einmitt þessu sviði geti sparað mjög háar upphæðir.