132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Stuðningur við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum.

313. mál
[16:22]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Frú forseti. Þetta framlag skiptir verulega miklu máli, sérstaklega fyrir minni sveitarfélögin. Reykjavík hefur lokið sínum framkvæmdum og kannski er óþarfi að velta því fyrir sér að þessar upphæðir renni einmitt þangað vegna þess að það blasir við að það þarf að skýra ákveðna hluti varðandi framkvæmd reglugerðarinnar fyrir minni sveitarfélögin. Þó svo að miklu minni mengun sé frá minni sveitarfélögum þá er verið að leysa miklu minna vandamál.

Ef við tökum Bolungarvík sem dæmi þá á að hreinsa þar samkvæmt reglugerðinni, eins og hún stendur núna, ákveðna prósentu af þeim úrgangi sem berst frá 900 manns sem búa þar. Segjum að verið sé að hreinsa 200 einingar þar í burtu. En það blasir við að rannsókn á viðtakanum gæti leitt í ljós að hann þyldi mengun upp á 1.000 og jafnvel 2.000 einingar. Ég tel mjög mikilvægt að þessi upphæð fari til minni sveitarfélaganna sem eiga eftir að leysa sín vandamál og fá betri skýringar á reglugerðinni sem þau þurfa að fara eftir. Þetta er mikill vandi bæði hvað varðar túlkun á henni og síðan hvað þetta er gríðarlegur kostnaður sem leggst á lítil sveitarfélög við að leysa tiltölulega lítil umhverfisleg vandamál.