132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Umhverfismat áætlana.

342. mál
[17:38]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Hvað snertir sveitarfélögin og skipulagsáætlanir er ljóst að þau hafa þegar þessa skyldu með höndum samkvæmt skipulags- og byggingarlögum. Það er hins vegar kannski annað mál hvort henni hefur verið sinnt eins og vera bæri. Ég tel að það sé algjörlega ljóst að hún er þegar fyrir hendi. Við teljum því að það séu ekki neinir verulegir fjármunir sem þetta ætti að hafa í för með sér fyrir þau þó að ég vilji ekki útiloka að það verði eitthvað.

Hvað snertir sjálfbæra þróun þá var mjög skemmtileg hugvekja flutt á umhverfisþinginu þar sem við vorum minnt á að það hefði verið aðalsmerki Íslendinga í gegnum tíðina að fara vel með og ég tek undir það. Þetta snýst náttúrlega öðrum þræði um græðgi eða ekki græðgi og að gæta hófs í hlutunum, halda þeim innan skynsamlegra marka. Síðan er aftur annað mál að það sem einum finnst vera rétt getur verið að öðrum finnist það ekki. Menn eru því ekki alltaf sammála um þessi mál. Svo einfalt er það.