132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Tekjuskattur og eignarskattur.

326. mál
[17:40]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Frumvarpið er 326. mál þingsins og er að finna á þskj. 358.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á grunnfjárhæð sjómannaafsláttar, auk þess sem lagðar eru til breytingar sem lúta að skattframkvæmd.

Í 1. gr. frumvarpsins er lagt til að grunnfjárhæð sjómannaafsláttar verði hækkuð um 2,5% frá 1. janúar 2006 og komi til framkvæmda við staðgreiðslu á árinu 2006. Þessi hækkun er í samræmi við þá hækkun persónuafsláttar sem samþykkt var haustið 2004.

Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að breyting verði á viðmiðunardagsetningu þess, hvar menn skuli telja fram og hvar lagt skuli á þá ár hvert. Lagt er til að miðað verði við að menn skuli telja fram og vera skattlagðir þar sem þeir áttu lögheimili 31. desember ár hvert í stað 1. desember eins og nú er. Ástæður þess að miðað hefur verið við 1. desember en ekki síðasta dag ársins liggja í vinnulagi fyrri tíma, en ljóst er að verulegar tæknilegar framfarir hafa átt sér stað frá því að framangreint tímamark var lögfest. Núgildandi fyrirkomulag hefur hins vegar tafið fyrir vinnslu skattyfirvalda og aukið hættu á villum og því er þessi breyting lögð til.

Hæstv. forseti. Með þessum orðum legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.