132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[17:48]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég spái því að frumvarpið sem hæstv. fjármálaráðherra hefur hér flutt um breytingu á lögum um olíugjald og kílómetragjald sé aðeins fyrsta breytingin á því sem á eftir að koma fram. Því var spáð við upptöku þessara laga að margt ætti eftir að koma í ljós og mörgu ætti eftir að breyta. Ég tek t.d. eftir því að reglugerð sem gefin var út 23. júní var breytt 8. ágúst hvað varðar skilgreiningar á t.d. steypuhræribifreiðum og öðru slíku. Margt á eftir að koma fram sem á kannski ekki beint erindi inn á hið háa Alþingi en verður rætt í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég á ekki sæti í þeirri nefnd en hef oft tjáð mig um þetta mál. Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra út í nokkra þætti sem hér liggja á bak við og tjá mig um aðra vegna þess að ég held að meira eigi eftir að koma í ljós um þetta og að breyta þurfi meiru. Annað er kannski látið liggja núna, svo menn viti af því, og ekki er á því tekið af því að það er óþægilegt. Það á t.d. við um hvernig gangi að selja litaða olíu við hliðina á ólitaðri olíu og hvort farið sé á svig við það kerfi, sem er ef til vill ekki rétt að ræða hér og hæstv. ráðherra getur ekki fjallað um. En ég held að margt eigi eftir að koma í ljós.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra út í það að lagt er til að dráttarvélar geti allar verið með gjaldfrjálsa olíu, óháð því hvort þær eru notaðar í landbúnaði eða á vegum. Ég ætla ekki að andmæla því út af fyrir sig. Ég fagna því að þau tæki geti verið með gjaldfrjálsa olíu því þau eru mikið notuð, ekki bara við landbúnað heldur líka á vegum sveitarfélaga. Hins vegar vil ég spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort við séum ekki þarna á gráu svæði því að við gætum jafnvel fengið á okkur kæru eða athugasemdir frá landsfélagi vörubifreiðaeigenda vegna þess að slík tæki eru notuð í svipuðum tilgangi, þ.e. til að flytja efni hjá verktökum, t.d. á vegum sveitarfélaganna, frá einum stað til annars. Dráttarvélarnar, sem eru töluvert stórar og komast hraðar en 40 km eins og kveðið er á um í reglugerðinni eða lögunum, eru orðnar miklu betri og fullkomnari en þær voru áður. Þær geta notað alls konar búnað eins og tengivagna, sturtuvagna og annað slíkt. Þetta skekkir samkeppnissjónarmiðið gagnvart vörubílum. Ég tek skýrt fram að ég er ekki að andmæla þessu með dráttarvélarnar heldur vekja athygli á viðkomandi þætti.

Hér er talað um námuökutæki á móti vörubílum. Ég veit dæmi um að við Hellisheiðarvirkjun eru þessi tæki í notkun á sama vinnustað, annars vegar svokallaðar búkollur sem eru námuökutæki og þar sem slík tæki eru notuð keyra þau á gjaldfrjálsri olíu, á móti vörubílum sem keyra sömu leið og hafa komist upp í að nota allt að 100 lítra á 100 km því þeir eyða mjög miklu vegna þess hversu bratt er keyrt.

Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra: Er ekki hætta á að þarna séu samkeppnissjónarmið brotin, þ.e. þeirra verktaka sem eiga þessi tæki og stunda slíkan rekstur? Erum við ekki að brjóta jafnréttisreglu stjórnarskrárinnar að menn skuli ekki sitja við sama borð hvað þetta varðar? Þetta er mikilvægt atriði, virðulegi forseti.

Hægt væri að benda á mörg svipuð atriði. Til dæmis skilst mér að ef snjótönn er sett á vörubíl, en margar slíkar moka snjó af þjóðvegum landsins fyrir Vegagerðina, að þegar vörubíll er kominn með snjótönn framan á sig er hann kominn á gjaldfrjálsa olíu. Ef hann hins vegar deginum áður keyrir varning er hann á gjaldskyldri olíu. Þarna kemur því margt upp, virðulegi forseti.

Ég tek einnig eftir því í reglugerðinni sem hæstv. ráðherra gaf út í júní og ég gat um áðan, að þær slökkvibifreiðar sem eru undanskildar olíugjaldinu eru eingöngu körfubílar og dælubílar, ekki aðrar slökkvibifreiðar, ekki þær sem þurfa að bruna af stað með slökkviliðsmenn eða reykköfunarútbúnað eða annað. Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að framfylgja svona reglugerð þar sem litaðri olíu er dælt á nokkra bíla á slökkvistöðinni en ólitaðri á aðra? Þetta hlýtur að kalla á mörg vandamál og ef til vill misnotkun á þessu kerfi. Ég gæti tínt fleira til en ætla ekki að gera það núna.

Ég segi hins vegar um einn þátt þessara breytinga að hæstv. ráðherra er að búa til sérstakt kílómetragjald. Lögin eru nokkurra mánaða gömul og voru samþykkt þannig að olíugjald er, sem á við alla sem þurfa að fara undir það, en síðan var sett sérstakt gjald á bifreiðar sem eru tíu tonn og þyngri og á það sérstaklega við um stærri bíla, t.d. flutningabíla. Þeir greiða einnig kílómetragjald. Þetta er alveg ótrúleg uppfinning hjá hæstv. ríkisstjórn að búa til slíka skattheimtuflokka á þau ökutæki. Í þessu olíugjaldsfrumvarpi er verið að búa til enn eina gjaldskrána, enn eitt kílómetragjald sem heitir núna sérstakt kílómetragjald sem á að vera valkvætt fyrir þá aðila sem vilja nota það, eins og t.d. steypuhræribifreiðar, sem hér er talið að borgi of lítið til ríkisins og á að ná í þá til þess að þeir borgi meira og er vitnað í það að þeir borgi þá eitthvað svipað og vörubílar. Þetta er algjörlega á skjön við það sem ég hef bent á áður með ýmis önnur tæki sem ég hef nefnt.

Þetta var um það sem talað er hér um í fjórða lagi og hitt var um námuökutæki og beltabifreiðar sem ég hef gert hér að umtalsefni. Þá eru það önnur tæki sem vinna mikið í kyrrstöðu. Ég spyr sjálfan mig að því og kannski er rétt að setja það yfir í spurningu til hæstv. fjármálaráðherra sem fylgir frumvarpinu úr hlaði. Talað er um götuhreinsibifreiðar og sérstaklega tekið fyrir í reglugerðinni en hér er t.d. ekki talað um bifreiðar sem eru mikið í vinnu hjá sveitarfélögunum við að hreinsa holræsakerfi bæjarfélaganna. Undir hvað falla þær? Þetta eru bifreiðar sem standa mikið kyrrar og nota olíu til að drífa mikinn dælubúnað. Hvað um slíkar bifreiðar? Ýmislegt fleira mætti taka til.

Ég held að þessi breyting sé enn ein staðfestingin á því að þetta er ekki nógu gott kerfi sem við vinnum eftir. Það eru allt of margar undankomuleiðir í því. Á fundi í samgöngunefnd ekki alls fyrir löngu var einn gestur fundarins spurður út í olíugjald og tekjur af því. Hann vildi nú ekki miklu svara um það en benti á hvernig þetta væri í framkvæmd, vegna þess að tankar eru hlið við hlið á olíustöðvum sem selja litaða og ólitaða olíu. Og hvernig kemur þetta út eftir þá mánuði sem þetta hefur verið í gangi? Hvernig lítur þetta út t.d. gagnvart tekjum Vegagerðarinnar af olíugjaldi? Ef til vill getur hæstv. ráðherra svarað þessu og sagt okkur það en ef til vill er ekkert að marka það, m.a. vegna þess að efnahags- og viðskiptanefnd hækkaði mjög það magn sem aðilar máttu eiga við upptöku gjaldsins, þ.e. þegar þetta var hækkað að mig minnir úr fimm þúsund lítrum upp í 15 þúsund lítra. Við vitum ekki hvað menn áttu mikið af olíu sem þeir höfðu safnað þegar olíugjaldskerfið var tekið upp. Kannski er ekki komin skýr mynd á það hvernig þetta kemur út.

Í lokin vil ég segja enn einu sinni, virðulegi forseti, að þessa olíugjaldsupptöku hefði að mínu mati átt að geyma. Hún kemur of seint miðað við það sem boðað er í Evrópu, menn ætla að fara að taka upp þessa kubba eða hvað þetta er nú kallað, sumir hafa kallað þetta njósnatæki, sem sett eru í bíla og menn greiða eftir því. Ég er ákaflega skotinn í því með tilliti til þess að hæstv. ráðherra byggðamála fjallar stundum um að nauðsynlegt sé að ríkisstjórnin geri einhverjar ráðstafanir til að draga úr óheyrilegum flutningskostnaði sem þjakar íbúa og fyrirtæki sérstaklega á landsbyggðinni, að breyta ætti þessu kerfi og taka upp umrædda kubba, t.d. í flutningabifreiðar, og byrja á að prófa þetta þar og sjá hvort ekki er hægt að þróa aðferð sem kæmi þannig út að þegar flutningabílar keyra á kvöldin og næturnar þegar lítil umferð er þá borgi þeir bara hálft gjald eða minna. Kannski okkur tækist þá að lækka þá óheyrilegu skattheimtu sem er á flutningastarfsemi í landinu.

Ég nefni þetta aðeins í framhjáhlaupi, virðulegi forseti, þó svo að það sé ekki aðaltilgangur þessa frumvarps. En ég hef lagt nokkrar spurningar fyrir hæstv. fjármálaráðherra og ég vænti þess að heyra svör hans á eftir.