132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[18:29]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Umræðan um þetta litla frumvarp, um breyting á lögum um olíugjald og kílómetragjald, hefur farið töluvert yfir í umfjöllun um flutningskostnað og þess háttar, sem eru ekki nýjar fréttir. Af því að hæstv. ráðherra vitnaði til þess sem byggðamálaráðherra hefði sagt, að ekki væri á dagskrá að lækka þetta gjald neitt, þá vil ég nefna að forveri þessa gjalds, olíugjaldsins, þungaskatturinn var hækkaður svo mikið í tíð núverandi ríkisstjórnarflokka og tekjurnar urðu svo miklar í ríkissjóði að menn urðu að finna nýja leið þegar olíugjaldið var tekið upp vegna þess að þá var ekki hægt að hafa olíugjaldið svo hátt að það bitnaði á öllum sem kaupa dísilolíu. Þá var þetta aukagjald búið til sem er kílómetragjald fyrir bíla sem eru 10 tonn og þyngri.

Þessi svakalega skattheimta ríkisins af flutningastarfsemi er náttúrlega með ólíkindum. Þegar verið er að flytja matvörur milli landshluta, í flestum tilvikum frá höfuðborgarsvæðinu og út á land, eða vörur á vegum fyrirtækja, hráefni til iðnaðarframleiðslu eða annars, eða fiskflutningar sem hafa heldur betur aukist milli landshluta til að halda uppi atvinnu á stöðunum, þá kemur þessi svakalega skattheimta ríkisins af allri flutningastarfsemi þannig að helmingur af flutningsgjöldum rennur beint í ríkissjóð, í ríkiskassann hjá hæstv. fjármálaráðherra Árna M. Mathiesen. Á mannamáli: Ef vörur væru fluttar norður á Akureyri á einum flutningabíl og flutningsgjöldin af þeim farmi væru 200 þús. kr. rynnu 100 þús. kr. beint í ríkissjóð af þeim flutningi. Finnst hæstv. fjármálaráðherra þetta vera jafnrétti eða jafnræði? Þetta er í raun og veru eitthvert mesta óréttlæti sem viðgengst núna og engan veginn hægt að sætta sig við það. Það er heldur engan veginn hægt að sætta sig við að hæstv. byggðamálaráðherra sem talar á tyllidögum, í samkvæmisræðum og á framboðsfundum um að nauðsynlegt sé að niðurgreiða þetta gjald eða finna einhverja leið til að lækka það, kemur svo í tíma og ótíma hér í ræðustól Alþingis og segir að því miður verði bara ekkert gert. Allt bendir til þess að það sé vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn stoppi málið og vilji ekki fara þá leið. Því segi ég, virðulegi forseti, og mundi fagna því ef hæstv. fjármálaráðherra tæki undir: Ég held að við ættum að prófa það kerfi að setja fyrst í flutningabílana aksturskubbana sem sprotafyrirtæki á Íslandi er að þróa, og er ef til vill komið hvað lengst í í heiminum, og freista þess að lækka flutningsgjöld með því að leyfa þeim bílum að keyra á ákveðnum tímum á miklu lægra gjaldi til að byrja með. Mundum við þá ekki sjá hvort við gætum lækkað flutningsgjöldin hvað það varðar? Við þessa aðferð þurfum við ekkert leyfi frá ESA eða hvað þetta apparat heitir úti í Brussel sem hæstv. byggðamálaráðherra skýlir sér stundum á bak við.

Við höfum það á valdi okkar á hinu háa Alþingi að lækka þessa skattheimtu alveg eins og við lækkum tekjuskatt á einstaklingum eða tekjuskatt á lögaðilum. Það er með öðrum orðum, virðulegi forseti, alveg óþolandi hvernig vegna þessara háu gjalda, þungaskatturinn og það sem á eftir kom, olíugjaldið, íþyngir allri atvinnustarfsemi og lífi fólks. Eins og hér hefur komið fram leggst svo virðisaukaskattur ofan á allt saman. Gera menn sér t.d. grein fyrir því, gerir hæstv. fjármálaráðherra sér grein fyrir því að í flutningsgjöldum frá þessum fyrirtækjum núna, hvort sem þau koma til almennings eða fyrirtækja, er orðinn sérstakur liður í lokin sem heitir „sérstakt álag vegna olíugjalds“?

Virðulegi forseti. Það er engan veginn hægt að sætta sig við þetta kerfi þó svo að menn hafi ætlað að einfalda leiðina og fara betri leið eins og hæstv. ráðherra talaði um, og ég get vissulega tekið undir að það er full ástæða til að einfalda kerfið og greiða fyrir olíuna um leið og henni er dælt úr olíutanki í staðinn fyrir að greiða sérstakt gjald eins og gert var áður. Það getur vel verið að það sé gott enda átti þetta að vera til þess. Megintilgangur olíugjaldsfrumvarpsins á sínum tíma var að auka notkun landans á litlum sparneytnum dísilbílum til að freista þess að minnka útgjöld þjóðarbúsins í þeim efnum. Ég held að sú hafi ekki orðið reyndin að margir litlir sparneytnir bílar, dísilbílar, hafi komið til landsins vegna þess að olíuverðið er svo hátt og olíugjaldið er svo hátt. Þær hagsbætur sem áttu að verða af frumvarpinu, að litlum sparneytnum bílum fjölgaði í umferðinni á Íslandi, hafa ekki komið fram. Hins vegar hefur allt það versta komið fram, þ.e. sérstakt kílómetragjald á flutningastarfsemi, hátt olíugjald og hátt olíuverð. Við sjáum, virðulegi forseti, hvaða áhrif þetta hefur haft á flutningastarfsemina á þeim stutta tíma sem liðinn er frá því að lögin tóku gildi, frá 1. júní síðastliðnum, og ofan á allt annað sem gengur í gegn í þjóðfélaginu eins og sterk króna og vandi sjávarútvegsfyrirtækjanna. Skyldu þessi háu flutningsgjöld ekki vera til að auka enn frekar erfiðleika sjávarútvegsfyrirtækja, sérstaklega á landsbyggðinni, sem flytja fisk milli hafna til vinnslu á viðkomandi stað? Og ofan á sterka krónu og ofan á litlar tekjur sem sjávarútvegsfyrirtækin fá í dag fyrir afurðir sínar er þetta enn þá meira íþyngjandi. Þetta höfum við séð í gögnum sem við höfum fengið frá fiskvinnslufyrirtækjum, eins og rækjufyrirtækjum vestur á fjörðum sem nefndu þetta sem lið númer tvö, þ.e. háan flutningskostnað við að flytja hráefni eða fullunna vöru milli staða.

Ég ætla að enda mál mitt á því að minna menn á að síðan hefur það gerst að strandsiglingum hefur verið hætt þannig að núna er allt flutt á vegunum og flutningskostnaðurinn vex og vex og íþyngir fyrirtækjum og almenningi á landsbyggðinni miklu meira en áður var. Ríkisstjórnin ætti að láta af þeim ljóta leik að búa til þessa landsbyggðarskatta og íþyngja þannig atvinnustarfsemi og lífi fólks úti á landi eins og hún gerir með þessum hrikalega háu gjöldum.