132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Olíugjald og kílómetragjald o.fl.

327. mál
[18:42]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við lok umræðunnar vil ég bara segja um þetta litla frumvarp og þær breytingar sem hér er verið að gera að þó svo að þær hafi leitt til annarrar umræðu er það engu að síður mikilvægt og gott að hafa átt viðræður á hinu háa Alþingi við hæstv. fjármálaráðherra um þetta hvað varðar tekjuhliðina.

Virðulegi forseti. Ég hvet að lokum hæstv. fjármálaráðherra til að setja sig vel inn í alla þá skatta sem leiða af flutningastarfsemi og renna beint í ríkiskassann og til hvers þeir leiða gagnvart atvinnulífi á landsbyggðinni og lífi fólks í vöruverði og öðru slíku. Menn geta svo spurt hve mikill hluti af bensíngjaldinu, hve mikill hluti af olíugjaldinu o.fl. eigi að renna til Vegagerðarinnar til framkvæmda. Eins og ég sagði áðan var heildarskattheimta af umferð, bifreiðainnflutningi, bensíngjaldi, olíugjaldi, gúmmígjaldi og hvað þetta allt heitir, 32 milljarðar síðast þegar FÍB reiknaði þetta út. Innan við helmingurinn af þeirri upphæð rennur til vega- og samgöngumála, þar með talið reksturs Vegagerðarinnar, þjónustu Vegagerðarinnar og nýbygginga sem er ekkert allt of stór hluti af þessum 14 milljörðum. Ég man ekki hvort það nær 6 milljörðum eða hvort það eru bara 5 milljarðar á þessu ári. Þetta sýnir okkur að skattheimtan af umferðinni er langtum meiri en við höfum talað um hér og ekki nema lítill hluti hennar rennur til samgöngubóta.