132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Röðun mála á dagskrá.

[13:33]
Hlusta

Margrét Frímannsdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Svo háttar til á dagskránni í dag að 8. málið, Réttarstaða samkynhneigðra, stjórnarfrumvarp, sem er samkomulagsmál og mál sem ég reikna með að flestir þingmenn vilji sjá að fái afgreiðslu sem allra fyrst, er á eftir umræðu um 7. dagskrárlið sem er Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu sem jafnframt er vitað að er ágreiningsmál og mun þurfa töluverða umræðu.

Hæstv. forsætisráðherra flytur mál um réttarstöðu samkynhneigðra og ég óska eftir því fyrir hönd þingflokks Samfylkingarinnar að gerð verði sú breyting á dagskrá að mál nr. 8 á dagskránni verði tekið fyrst til umræðu.