132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Röðun mála á dagskrá.

[13:44]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Menn finnst menn taka undarlega í þessa beiðni sem er fullkomlega málefnaleg og hefur þau augljósu rök fyrir sér að byrja á þeim málum sem full samstaða er um og ekki er ástæða til að ætla að þurfi langa umræðu en geyma hin, sem vitað er að kalla á langa umræðu og eru umdeild og mikil skoðanaskipti verða um, þangað til aftar á fundinum. Það er iðulega gert, frú forseti. Ég er undrandi á því hversu forsetar eru allt í einu orðnir rígfastheldnir á að taka öll mál fyrir samkvæmt númeraröð á dagskrá. Öðruvísi mér áður brá, segi ég nú bara. (Gripið fram í.) Það veit vonandi á gott. Að eftirleiðis verði t.d. ekkert gert með óskir ráðherra um að rútta til dagskránni fram og til baka eftir því hvenær þeim þóknast að vera viðstaddir af því að númeraröðin sé alveg heilög og hvergi megi frá henni víkja.

Það var gaman að því að fyrrverandi forseti þingsins, hv. 1. þm. Norðaust., kom hér upp og kannaðist ekkert við að það hafi nokkurn tíma gerst að menn færðu mál eitthvað til á dagskrá. Nei, nei, enda býr hann ekki að mikilli þingreynslu (Gripið fram í.) þannig að hann þekkir þetta ekki langt aftur í tímann.

Það sem verið að gera hér er að fara fram á það í allri hógværð að mál þetta sem mönnum er annt um og vilja gjarnan greiða götu þess, mönnum finnst góður svipur á því að taka það fyrir fyrst á fundinum. Það eru náttúrlega ótal fordæmi fyrir því, svo öllu gamni sé nú sleppt, að víkja þannig til röð dagskrármála ef samstaða og samkomulag er um það. Ef það er hins vegar svo að hitt málið, virkjunarmál hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sé slíkt heilagt forgangsmál ríkisstjórnarinnar að engin tök séu á því að verða við þessari beiðni stjórnarandstöðunnar þá verður að hafa það en það hlýtur þá að vera ástæða. Ég sé ekki að neitt annað geti verið á ferðinni en að ríkisstjórnin telji hitt málið svo brýnt og það skuli hafa slíkan algeran forgang og þá harma ég það. Ég held að farið hefði mjög vel á því að taka hitt málið hér í rólegri og yfirvegaðri umræðu, enda hefur enginn mælt á neinn annan hátt nema ef vera skyldi hv. 2. þm. Norðaust. sem misskildi algerlega þær óskir stjórnarandstöðunnar sem hér hafa verið fluttar.