132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[14:01]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Jón Bjarnason hélt hér ákaflega einkennilega ræðu. Málið er að eins og lögin eru í dag þá fer enginn í rannsóknir vegna vatnsaflsvirkjana, í fyrsta lagi vegna þess að þeir hafa engan forgang um það að fá nýtingarleyfi en kannski enn þá frekar vegna þess að þeir hafa enga vissu fyrir því að fá þann kostnað endurgreiddan sem þeir hafa lagt í rannsóknir , fái þeir ekki nýtingarleyfið þegar þar að kemur. Það ríkir óvissuástand og þess vegna reyndi ég síðastliðinn vetur að bæta úr með því að leggja fram frumvarp í þinginu sem var til umfjöllunar í iðnaðarnefnd en varð ekki afgreitt. Þrátt fyrir að hv. þingmaður hafi andstyggð á öllum virkjunum má hann ekki reyna að koma í veg fyrir að það séu lög í landinu sem kveði á um hvernig skuli halda á málum í þeim tilfellum sem aðilar vilja fara í rannsóknir vegna hugsanlegra vatnsaflsvirkjana og leggja í þær fjármagn. Það er ómögulegt að hafa þetta eins og þetta er. Mér gengur ekki annað til en að koma málum í það horf sem ég tel algerlega nauðsynlegt upp á framtíðina.