132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[14:03]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég vek athygli á því að hæstv. ráðherra svaraði ekki því sem hún var spurð um. Ég spurði: Af hverju liggur svo á að fá þessi virkjunarleyfi? Það kom fram í svari ráðherrans að rannsóknarleyfi er það sama og virkjunarleyfi því að enginn vill fara í rannsóknir nema hafa vissu fyrir því að hann fái líka virkjunarleyfi. (Gripið fram í.) Það kom fram hjá ráðherranum. (Gripið fram í: Nei.)

En ég vil fá svör. Liggur svona á og liggja fyrir beiðnir um rannsóknarleyfi á vötnunum í Skagafirði á Skjálfandafljóti, á Langasjó? Er það þetta sem rekur nú á eftir því að ráðherrann vill setja þetta hér fram fyrir alla aðra umræðu í málaflokkum sem heyra undir atvinnu- og byggðamálaráðherrann? Fram fyrir alla aðra umræðu skal þetta mál keyrt, þ.e. heimild til að ráðstafa virkjunarleyfum í jökulsánum í Skagafirði, í Skjálfandafljóti, í Langasjó. Það er þetta sem er forgangsmál hjá hæstv. iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins. Hefðum við ekki viljað sjá hér frekar umræðu um byggðamál, stöðuna þar, um stöðu útflutningsatvinnugreinanna í stóriðjuæði Framsóknarflokksins? Ég krefst þess vegna svara, frú forseti. Er það vegna þess að það þarf að úthluta virkjunarleyfum í jökulsánum í Skagafirði (Gripið fram í.) sem er mesta áhugamál framsóknarmanna greinilega og í Skjálfandafljóti? (Gripið fram í.) (BJJ: Þú átt að lesa frumvarpið.) Ég vil fá svör við þessu. Liggja fyrir beiðnir nú þegar um að fá þessi rannsóknar- og virkjunarleyfi? Er það þess vegna sem ráðherrann er að böðla þessu í gegnum þingið sem lið í stóriðju- og álvæðingu landsins?