132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[14:08]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það var mikill skaði að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra skyldi ekki eyða eins og tveimur mínútum í að rekja sögu þessa máls, fara yfir frumvarp sitt frá því í fyrravetur og viðtökurnar sem það fékk og hver urðu þess endalok. Hæstv. ráðherra skaut sér á bak við það að iðnaðarnefnd, sem var reyndar ekki öll iðnaðarnefnd, ef ég man rétt, heldur meiri hluti hennar, hafi flutt frumvarp eða lagt (Gripið fram í.) fram nýtt frumvarp í framhaldi af því að frumvarpi ráðherrans frá því í fyrravetur hinu stóra var hent. Hæstv. ráðherra hefði kannski átt að rekja það aðeins hvað í þeim málatilbúnaði fékk þvílíka falleinkunn að leitun er að öðru eins í sögunni. Það er leitun að öðru eins í þingsögunni, alla vega á seinni árum, að stjórnarfrumvarp frá einum hæstv. ráðherra hafi fengið jafnhroðalega útreið og frumvarp ráðherrans til laga á þskj. 459 á síðasta löggjafarþingi, um rannsóknir og nýtingu á jarðrænum auðlindum, fékk.

Ég er hér með umsagnabunkann. Hann er nokkuð myndarlegur, frú forseti. Það er kannski ástæða til að bregða honum upp. Þvílík er falleinkunnin sem málatilbúnaður ráðuneytisins fékk frá velflestum umsagnaraðilum að það þarf að leita lengi, tel ég, til að finna (Gripið fram í.) annað eins. Ég veit það, hv. þm. Birkir Jón Jónsson. Ég veit hvaða mál ég er að tala um öfugt við kannski suma aðra. Ég er að vísa í frumvarpið sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra lagði fram í fyrra og var hent eftir allmikla umfjöllun í iðnaðarnefnd. (Gripið fram í.) Það var eins og formaður iðnaðarnefndar sjálfur vitkaðist í störfum nefndarinnar og bar gæfu til að leggja það til að frumvarpinu yrði hent því það væri ónýtt. Þá var saminn þessi litli kálfur, þessi litli bastarður sem endurgengur svo í lífdagana hér fluttur núna af hæstv. ráðherra. Nú eru þessi ósköp orðin stjórnarfrumvarp og það á að fara mikla fjallabaksleið, vægt til orða tekið, til að ná fram meginmarkmiði ráðherrans. Og hvað er það? Það er að úthluta því sem eftir er af virkjanlegum orkukostum í vatnsafli á Íslandi til orkufyrirtækjanna til að þau geti helgað sér land, geti eyrnamerkt sér þau álitleg vatnsföll og stór sem eftir eru og menn hafa ekki þegar komið klónum í í gegnum það að tryggja sér virkjunarréttinn með samningum við landeigendur, uppkaupum á jörðum eða öðrum slíkum hætti. Þess vegna liggur á. Og hver er rökstuðningur ráðherrans? Það kemur hér fram í greinargerð, með leyfi forseta, að: „samkvæmt gildandi lögum hefur sá sem stundar rannsóknir á vatnsafli hins vegar ekki forgang til nýtingar,“ — aha! — „öfugt við það sem á við um jarðvarma, eða tryggingu fyrir því að fá rannsóknarkostnað sinn endurgreiddan komi til þess að annar aðili fái nýtingar- eða virkjunarleyfi á viðkomandi svæði.“ — Svo kemur aðalatriði málsins. — „Samkvæmt upplýsingum frá iðnaðarráðuneytinu“ — já, þeir eru svona vel upplýstir, þeir eru í svona góðum tengslum við orkufyrirtækin — „hefur komið í ljós að orkufyrirtækin eru tregari til að stunda rannsóknir á vatnsafli vegna þessa en heppilegt getur talist.“

Hér er nokkuð huglægt mat á ferðinni. Iðnaðarráðuneytið er óánægt með að ekki skuli vera enn þá meira í gangi, að menn skuli ekki vera bara komnir í öll vatnsföll sem renna á Íslandi. „Það eru nokkur eftir og þetta gengur ekki. Þið verðið að drífa ykkur líka í Skjálfandafljót, jökulvötnin í Skagafirði, í Hólmsá og þetta sem eftir er og þegar er ekki búið að helga.“

Nú vita menn það að orkufyrirtækin hafa verið hér eins og ónefnd dýrategund hlaupandi um landið og míga utan í aðra hverja þúfu til að helga sér hana. En það standa kannski nokkur út af og það er ekki nógu gott, segir iðnaðarráðuneytið. „Áfram með ykkur.“ En er nokkur vá fyrir dyrum gagnvart t.d. orkuöflun í þágu landsmanna á næstu árum? Nei. Það bíða margir fullrannsakaðir virkjunarkostir í velflestum landshlutum. Það er ekki um það sem þetta snýst. En eigi að keyra öll stóriðjuáformin áfram á fullu og samsíða, kannski þrjú stór álversverkefni í viðbót á næstu fimm til tíu árum, þá þarf auðvitað mikið að gerast. Þá þarf að sópa upp hér um bil öllum virkjunarkostum sem álitlegir eru eftir í vatnsaflinu, líka vegna þess að menn treysta því ekki að jarðhitann sé hægt að taka inn í jafnstórum stökkum og einföldum áföngum eins og sumar áætlanir gera þó ráð fyrir. Það er almennt viðurkennt að heppilegra er að taka jarðhitasvæðin þannig í notkun að það sé byrjað rólega og borað og aflað upplýsinga um svæðin og síðan virkjað í áföngum. Þess vegna treysta menn því ekki að hægt verði að mæta öllum þessum gríðarlegu þörfum, þreföldun til fjórföldun álframleiðslu á Íslandi, að gera Ísland eitt af stærstu álútflutningslöndum heimsins með um 5% heimsframleiðslunnar, ef allt gengi eftir sem hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra Framsóknarflokksins dreymir um. Álvæðing Íslands er hér sem sagt í húfi. (Gripið fram í.) Hér er auðvitað byrjað svo gjörsamlega á öfugum enda að ég hef eiginlega sjaldan séð annað eins í lagasetningu.

Hér tókst að hindra frumvarpið í fyrra (Gripið fram í.) sem er til marks um það sem væntanlega er í vændum ef hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra kemur fram vilja sínum. Ég hef ekki mikla trú á því að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra hafi skipt mikið um skoðun. Hvað fólst í þessu frumvarpi? (Gripið fram í.) Í þessu frumvarpi fólst — og það er áfram stefna iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins samanber frumvarp til vatnalaga — að leggja undir orkugeirann allt forræði á allri auðlindanýtingu á Íslandi og ýta umhverfisstofnunum og umhverfisaðilum burt. Það var það sem þetta snerist um, þ.e. að leggja t.d. undir orkugeirann, undir iðnaðarráðuneytið og Orkustofnun vatnið eins og það leggur sig með því að skilgreina vatn í fyrsta skipti í lögum sem jarðræna auðlind og það ekki bara svona rennandi vatn eða stöðuvötn, nei, vatn og aðrar orkulindir sem vinna má úr landi og úr jörðu hvort heldur er í föstu, fljótandi eða loftkenndu formi. Iðnaðarráðuneytið skal ráða þessu öllu og orkugeirinn hafa þetta á sínu forræði. Og út með umhverfishliðina.

Það var að vonum að stofnanir sem fara með umhverfismál á Íslandi létu ekki bjóða sér þetta og lögðu til, sumar hverjar, að frumvarpinu yrði hent. (Iðnrh.: Þær létu einmitt bjóða sér þetta.) Létu nú aldeilis bjóða sér þetta? Þarf að lesa fyrir hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra t.d. upp úr umsögn Náttúrufræðistofnunar og Umhverfisstofnunar? Ég veit að vísu að hæstv. umhverfisráðherra var svo stór í stykkinu að ráðast á undirmenn sína og skamma þá fyrir að hafa sjálfstæða skoðun og faglegan metnað og láta ekki bjóða sér hvað sem er í umhverfismálum. En svo langt er búið að lemja þetta lið niður í tíð þessarar ríkisstjórnar með skoðanakúgun og ólýðræðislegum vinnubrögðum fram í fingurgóma að maður hrósar því orðið ef menn standa upp fyrir hönd síns málstaðar og síns fags og láta í sér heyra. Þannig er búið að fara með menn með algeru ofríki þeirra sem keyra áfram stóriðjustefnuna. Náttúrufræðistofnun sagði með eftirfarandi orðum, með leyfi forseta:

„Náttúrufræðistofnun Íslands telur það mikla vankanta á frumvarpinu að rétt sé að afturkalla það.“

Er þetta að láta bjóða sér frumvarpið, hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra? Það var lagt til að frumvarpið yrði afturkallað, það væri ónýtt eins og það legði sig. Það var bent á hvernig verið væri að valta yfir allt sem héti eðlileg aðkoma þeirra sem fara með stjórnsýslu, eftirlit og verndarmál á sviði umhverfis í þessum málatilbúnaði. Hér er gamall fyrrverandi hæstv. umhverfisráðherra og hvað segir hann? Ætlar hann að þegja þunnu hljóði um þessi mál? Ég fer bara að lýsa eftir Samfylkingunni? Hvar er hún í þessum efnum? (ÖS: Umræðan er að byrja.) Þessi vinnubrögð og þessi málatilbúnaður er með endemum. Það þarf einhver að segja það, að frekjan í þessu liði gengur ekki. Það er ekki hægt að láta bjóða sér það uppi á Íslandi á árinu 2005 að nýtingarsjónarmið og græðgi vaði yfir allt og ýti öllu til hliðar sem menn hafa þó verið að reyna að byggja upp og þróa í umhverfismálum, a.m.k. alls staðar annars staðar en þá á Íslandi, síðustu 20–25 ár — kröfur um sjálfbæra nýtingu, sjálfbæra þróun, sjálfbæra framvindu um aðild almennings, umhverfisverndarsamtaka og félagasamtaka að þessum málum. Forneskjan er við völd á Íslandi í þessum efnum. Hvar er Árósasamningurinn, svo dæmi sé tekið? Ísland skrifaði undir hann fyrir löngu en honum er haldið niðri í skúffu af því að ekki má hleypa félagasamtökum og umhverfisverndarsamtökum að þessum málum. Nei, iðnaðarráðuneytið verður að fá að ráða þessu. Umhverfisráðherrar á Íslandi eru svo hafðir í því ömurlega hlutskipti að snúa við þá sjaldan að koma faglegar niðurstöður sem falla náttúrunni í vil eins og hjá Skipulagsstofnun um Kárahnjúka. Hvað er þá gert? Þá er pólitísku handafli beitt og því er snúið við, jafnömurlegt og það er. Svo ætlar hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra á grundvelli þessa kálfs hér, þessa kálfs- eða kvígufrumvarps, að stytta sér svo hrottalega leið en viðurkenna þó að forsendur til að setja leikreglur í þessum efnum vantar. Það á allt eftir að vinna. En það liggur svo á (Gripið fram í: Af hverju sagðirðu kvígur?) — þetta er nú sama dýrategundin, nautkálfar og kvígur eru hvort tveggja kálfar, ég var að tala um kálf. Hefur hv. þingmaður ekki heyrt þá málvenju að kalla litla útgáfu af einhverju kálf? Lítil rúta er t.d. gjarnan kölluð kálfur. (Gripið fram í.) Lítil rúta er gjarnan kölluð kálfur. (Gripið fram í.) Já, já, hafið það eins og þið viljið.

Ég held að hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra ætti að svara því, hverju sætir að ákvæði til bráðabirgða, sem var þó í frumvarpi iðnaðarnefndar í fyrra og var í stóra frumvarpi ráðherrans, er allt í einu fallið brott. Hvað segir í því ákvæði? Það er auðvitað til á prenti þó það hafi tapast niður. Í því segir, með leyfi forseta:

„Við gildistöku laga þessara skal iðnaðarráðherra skipa nefnd fulltrúa allra þingflokka sem sæti eiga á Alþingi. Í nefndinni skulu jafnframt eiga sæti þrír fulltrúar frá Samorku. Þá skal iðnaðarráðherra skipa tvo fulltrúa og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar. Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögu um með hvaða hætti valið verði milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laga þessara og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til.“

Það er ekki lítið undir. Þessi vinna er sem sagt öll eftir. Það þarf ekki að skipa nefnd í þetta nema allt sé eftir. Hlutverk nefndarinnar sem átti að skipa í framhaldi af lagasetningunni var að vinna verkið sem sagt er að þurfi að vinnast til þess að hægt sé að úthluta rannsóknarleyfum og velja á milli mismunandi aðila á einhverjum málefnalegum forsendum. Sú vinna er enn eftir. Samt ætlar hæstv. ráðherra að fara af stað og úthluta rannsóknarleyfum. Á hverju á að byggja, ef fleiri en tveir sækja um, úr því að allar kríteríur vantar til að velja á milli þeirra? Hlutverk nefndarinnar er að gera tillögur um með hvaða hætti valið verði milli umsókna um rannsóknar- og nýtingarleyfi á grundvelli laga þessara og marka framtíðarstefnu um nýtingu þeirra auðlinda sem lögin ná til.

Þetta segir auðvitað allt sem segja þarf. Það á þá að byrja á þessu og bíða með útgáfu leyfa þangað til, enda liggur ekkert á. Það er engin brýn nauðsyn, það er engin þörf sem kallar á flýtimeðferð þessara mála önnur en stóriðjutrúboð ríkisstjórnarinnar. Það eru margir stórir og smáir virkjunarkostir fullbúnir í landinu. Krafla, það er hægt að stækka hana. Tvær virkjanir í Neðri-Þjórsá, Núpavirkjun og Urriðafossvirkjun, meira og minna tilbúnar. Vatnsfellsvirkjun, komin í gagnið. Virkjun niðri í Sigöldulón tilbúin, bíðum bara. Fleiri stækkunarmöguleikar í jarðvarma, minni vatnsaflsvirkjanir hér og þar í landinu. Þetta er allt saman tilbúið þannig að ekki er orkuskortur fram undan, ekki í þágu almennra þarfa. Þótt hingað kæmu mörg lítil eða meðalstór iðnfyrirtæki sem notuðu 10, 20, 50 megavött af raforku í afli, ekkert vandamál. Miklu meira en nóg af fullrannsökuðum virkjunarkostum sem bíða en ef á að hella yfir þjóðina þremur stórum álverum í viðbót og fara í 1.200–1.400 þúsund tonna álframleiðslu innan kannski 10 ára, þá þarf auðvitað mikið til. Það er eins gott að menn átti sig á því. Það er rétt hjá hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra, þá er hægt að tala um tregðu, þá er hægt að tala um að orkufyrirtækin séu fulltreg í að rannsaka því þá þarf meira og minna að fara í alla virkjunarkosti sem eftir eru á Íslandi og ráðstafa þeim í eitt skipti fyrir öll, binda þá í útsöluverði til 40 ára í álframleiðslu og ekkert annað.

Menn skulu átta sig á því að það er ekki þannig að orkuforðinn í jarðvarma og vatnsafli, eins og hann hefur alla vega hingað til verið reiknaður, sé ótakmarkaður. Það gengur hratt á hann þegar menn byggja risavirkjun af því tagi sem nú er í gangi og menn eru farnir að bera víurnar í nánast öll háhitasvæðin og er nú fátt heilagt í þeim efnum. Ég veit ekki betur en Torfajökulssvæðið, Brennisteinsfjöll og hvaðeina sé allt saman fyrir sjónum virkjunaraflanna um þessar mundir þannig að það er ástæða til að staldra aðeins við það.

Auðvitað á að henda þessum málatilbúnaði eins og hann leggur sig. Hann er algerlega óframbærilegur hvernig sem á hann er litið. Ég hef þó ekki nefnt það sem er kannski að verða mesta hneykslið í þessu öllu saman og það er rammaáætlunin. Hvar er rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma? Áætlunin Maður – nýting – náttúra sem fór ágætlega af stað og þar sem merkileg vinna var unnin, að vísu var þetta verkefni illu heilli á forræði iðnaðarráðuneytisins frá byrjun, en hvar er það núna? Það er náttúrlega með endemum að sami ráðherra og á að heita yfirmaður, og er með rammaáætlunarvinnuna á sínu forræði, skuli taka svo til orða í greinargerð með stjórnarfrumvarpi að það sé óheppilega mikil tregða í orkufyrirtækjunum að vaða af stað á nýjum svæðum á sama tíma og rammaáætlunin er afvelta og ekkert virðist með hana gert.

Muna menn ekki hvað átti að gera með rammaáætluninni? Það átti að fara skipulega yfir alla virkjunarkosti í vatnsafli og jarðvarma og gera það sem við hefðum betur gert fyrir 20–30 árum eins og t.d. Norðmenn. Það stóð til að raða þessu upp, skoða umhverfisáhrifin, skoða framleiðslukostnaðinn og setja upp einhverja skynsamlega áætlun um í hvaða röð við vildum fara í þessa kosti. Hverjir koma best út? Hverjir eru bæði hagkvæmir í byggingu og hafa í för með sér lítil umhverfisáhrif, hverjir eru á hinum endanum? Hverjir eru svo slæmir frá sjónarhóli umhverfisins að það komi aldrei til greina að hrófla við þeim? Þessi vinna er eftir, því miður. Þetta verk er afvelta. Það á kannski að heita að það sé komið í einhvern starfshóp á nýjan leik en það hefur lítið af því frést núna um missira skeið. Hvað segja stjórnvöld við þessu? Hvernig stendur á því að þetta er svona? Hvar er núna hæstv. umhverfisráðherra? Af hverju heyrist ekki múkk frá þeirri hlið málanna? Auðvitað segir þetta allt sem segja þarf um áherslur ríkisstjórnarinnar um það hvað ekki er í forgangi. Það er í forgangi að taka virkjunarkostina á Íslandi eins og þeir leggja sig, sullast í þá alla. Því fyrr því betra, því meira því betra og ráðstafa þeim á útsöluprísum til erlendra álfyrirtækja. Draumurinn mikli um álvæðingu Íslands. Álvæðingu sem komi í staðinn fyrir annað atvinnulíf sem er á harðahlaupum úr landi eins og hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra ætti manna best að vita.

Voru það ekki þekkingarfyrirtækin, hugbúnaðarfyrirtækin, sem funduðu síðast nú í vikunni sem leið. Og hver er staðan þar? Þau fá gylliboð frá útlöndum og gengi krónunnar og aðrar aðstæður hrekja þau úr landi í stórum stíl. Þar á meðal hafa tvö þeirra lagt niður nokkra tugi starfa á Íslandi á allra síðustu vikum, eru flutt til Kanada eða eitthvert.

Þetta er veruleikinn. En hæstv. ríkisstjórn keyrir áfram þennan snjóplóg í gegnum hið almenna atvinnulíf í landinu, ryður til hliðar störfum í sjávarútvegi, störfum í ferðaþjónustu, störfum í framleiðsluiðnaði og störfum í samkeppnisiðnaði og ryður hátækni- og þekkingarfyrirtækjunum úr landi. Ég hef spurt að því áður og get gert það enn: Ætlar Sjálfstæðisflokkurinn að standa með Framsóknarflokknum í þessum leiðangri til enda? Ætla menn að standa í brunarústum íslensks atvinnulífs í þágu þessarar stóriðjustefnu? Við skulum bara ræða þessa hluti eins og þeir eru. Stækkun í 460–480 þúsund tonn í Straumsvík, 250 þúsund tonna álver í Helguvík. Yfir 200 þúsund tonna álver á Norðurlandi til viðbótar því að í gær bárust fréttir af því að nú ætli menn að stækka hraðar á Grundartanga en áður stóð til, fara í 220 þúsund tonn strax í lok næsta árs. Við þekkjum stærðina 400 þúsund tonn fyrir austan, eða hvað það nú er, og einhverjar aðrar fabrikkur hefur hæstv. iðnaðarráðherra dreymt um eins og rafskautaverksmiðju í Hvalfirði, alveg sérstaklega félegt fyrirtæki sem tæki sinn skerf af mengunarkvótanum ef í það yrði farið. Þetta eru forgangsverkefnin og öllu er rutt til hliðar í þessa þágu. Menn gera ekkert með sjálfa sig og sínar eigin yfirlýsingar, t.d. eins og svardagann um vinnu að rammaáætlun um Maður – nýting – náttúra. Því er bara hent þegar þess þarf. Virkjunarkostir sem þar áttu að vera undir voru auðvitað teknir út þegar að því kom að einhver vildi virkja þar. Það var t.d. þannig. Kárahnjúkavirkjun var í upphafi inni í þeirri vinnu. Svo er bara ákveðið að ráðast í hana þó að það lægi þegar fyrir í bráðabirgðaniðurstöðum að hún kom verst út, næst á eftir Þjórsárverum og Jökulsá á Fjöllum. Það var meira vert að tveir af þremur kostum þarna voru báðir undir í virkjunaráformum stjórnvalda samtímis því að vinnan fór fram.