132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[14:29]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er kominn langt fram úr sjálfum sér í þessari umræðu og fór langt út fyrir umræðuefnið. Hér er verið að tala um frumvarp til laga um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og snýr sérstaklega að rannsóknarleiðum tengdum vatnsfallsvirkjunum. Hv. þingmaður var kominn út í það að tala um virkjunarleyfi og þrjú álver sem hæstv. ríkisstjórn með hæstv. iðnaðarráðherra í broddi fylkingar ætlaði að reisa jafnvel á 5–10 árum. Hv. þingmaður er að tala gegn betri vitund í þessum efnum. Hann veit það t.d. að samkvæmt Kyoto-bókuninni, sem verður tekin til endurskoðunar árið 2012, höfum við einungis svigrúm til þess að byggja eitt slíkt álver upp á 240 þúsund tonn þannig að hv. þingmaður er að afvegaleiða umræðuna hér og það er ósköp eðlilegt að menn vilji horfa til framtíðar í þessum málaflokki sem öðrum og það er hastarlegt að heyra hv. þingmann tala gegn því að heimaaðilar t.d. í Skagafirði í samstarfi við aðra aðila eigi hugsanlega að geta fengið að rannsaka þær auðlindir sem eru fyrir í héraði, að heimamenn vilji horfa kannski til næstu 10–15 ára í þessum efnum. Það verða ekki reist nein þrjú álver á næstu 5–10 árum og hv. þingmaður veit það vel. Hér er einungis verið að koma til móts við heimamenn á þessum stöðum, að rannsakaðar verði þær auðlindir sem fyrir eru í héraðinu, og það var rangt sem hv. þingmaður sagði áðan um það samkomulag sem hér er í gildi. Öll iðnaðarnefndin flutti það mál á síðasta löggjafarþingi og það var undarlegt að heyra hv. þm. Sigurjón Þórðarson tala hálfpartinn gegn þessu máli áðan þar sem hann var flutningsmaður að tillögunni á síðasta löggjafarþingi. Staðreyndin er sú að Vinstri hreyfingin – grænt framboð var ein flokka hér á þingi á móti því að þetta frumvarp næði fram að ganga á síðasta þingi. Hér er um eðlilegt mál að ræða. Það er eðlilegt að fólk fái að rannsaka þær auðlindir sem fyrir eru á heimasvæði þess.