132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[15:02]
Hlusta

Kjartan Ólafsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu. Mig langar að spyrja hv. þm. Jóhann Ársælsson. Hann talaði í ræðu sinni áðan um jafnræði til nýtingar á auðlindunum. Hann talar um að ekki liggi nú mikið á að koma þessu frumvarpi í gegn. Mér fannst hann ekki skilja að heimamenn hvarvetna á landinu hafa áhuga á því að hefja orkufrekan iðnað, bæði fyrir norðan og á Suðurlandi. Er hv. þingmaður að reyna að segja að hér verði ekki hafnar framkvæmdir við ný fyrirtæki annars staðar en í Hvalfirði? Hvalfjörðurinn og kjördæmi hans nýtur þess að fá orku frá öðrum kjördæmum. Er þingmaðurinn að reyna að stuðla að því að nýir staðir geti ekki tekið þátt í orkufrekum iðnaði heldur einungis hans kjördæmi?