132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[15:03]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér fannst þetta svolítið merkileg fyrirspurn. Ég held að alþingismenn hljóti yfirleitt að fjalla um málin hér svona út frá almennum sjónarmiðum. Ég veit ekki betur en að það sé akkúrat þannig eins og hv. þingmaður sagði að raforkan sem þar er um að ræða kemur frá öðrum svæðum en frá heimamönnum.

Ég segi hins vegar eins og er að mér finnst mjög undarlegt að menn skuli vera með einhverjar yfirlýsingar um heimamenn. Ég hef ekki upplýsingar um það hverjir hafa óskað eftir því að fá að rannsaka orkulindir í kringum landið. En það virðist ganga í sölum Alþingis að einhverjir heimamenn séu búnir að sækja um og að það liggi nánast í loftinu að þessir heimamenn fái rannsóknarleyfin. Það er mjög merkilegt. Ég held að full ástæða sé til að menn fari yfir það hvort það sé bara þannig að búið sé að eyrnamerkja þetta allt saman og hverjir eigi að fá rannsóknarleyfin.