132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[15:06]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er dálítið hissa á málflutningi hv. þingmanns þar sem við erum að tala um frumvarp sem við lögðum fram í sameiningu á síðasta löggjafarþingi. Það hefur efnislega ekkert breyst og engar aðstæður hafa breyst sem geta valdið því að hv. þingmaður styðji ekki málið í dag. Ég vil ekki trúa því.

En hv. þingmaður hefur vitnað mjög til orða minna um áhuga heimamanna á að auðlindir í heimahéraði verði rannsakaðar. Ég sagði það áðan og það er ekkert leyndarmál að áhugi er m.a. í Skagafirði og Þingeyjarsýslum á því að auðlindir þar verði rannsakaðar. En ég hélt að hv. þingmaður væri það vandur að virðingu sinni að hann mundi ekki leggja mér þau orð í munn að búið væri að úthluta leyfum til heimamanna. Það verða margir um hituna. Ég bið hv. þingmann um að leiðrétta þetta. Það getur vel verið að ég hafi mismælt mig í þeim efnum. Ég hef ekki áttað mig á því. En það verða náttúrlega margir um hituna. Það er alveg ljóst að hv. þingmaður veit að heimamenn hafa áhuga á að þessi mál verði skoðuð.