132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[15:13]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Jóhanni Ársælssyni fyrir undirtektir við þessi sjónarmið. En það er nú svo, ef við tökum Skagafjarðarfljótin sem dæmi, jökulsárnar í Skagafirði, þá snýst þetta frumvarp um að úthluta þar rannsóknar- og virkjunarleyfum til orkuframleiðslu, til stóriðju. Þetta frumvarp snýst um það. Það fer bara ekki saman við hagsmuni ferðaþjónustuaðilanna eða annarra sem vilja njóta þessara vatnsfalla með öðrum hætti. Ef búið er að virkja eða stífla jökulsárnar í Skagafirði þá stundum við ekki samtímis fljótasiglingar á þeim eða njótum náttúrufegurðar gljúfranna. Þetta fer bara einfaldlega ekki saman.

En þetta frumvarp kveður svo á um að forgangsréttur sé svo til nánast algjör. Ef einhver vill fá að rannsaka þessi vatnsföll með tilliti til raforkuframleiðslu til stóriðju þá skuli það hafa forgang umfram allt annað. Það (Forseti hringir.) finnst mér afar óásættanlegt og ég er viss um að Skagfirðingar eru mér sammála um það hvað varðar jökulvötnin í Skagafirði.